Innlent

Dæmdur fyrir árás á veitinga­stað á Akra­nesi

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað á veitingastaðnum Gamla kaupfélaginu á Akranesi í júlí 2021.
Árásin átti sér stað á veitingastaðnum Gamla kaupfélaginu á Akranesi í júlí 2021. Vísir/Arnar

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann í þrjátíu daga fangelsi og greiðslu miskabóta fyrir að hafa ráðist á annan mann á veitingastaðnum Gamla Kaupfélagið á Akranesi í júlí 2021.

Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.

Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi slegið annan mann í andlitið þannig að hann hafi fallið í gólfið og svo aftur þegar hann reyndi að standa upp. Varð það til þess að fórnarlambið hlaut talsverða bólgu yfir vinstri augabrún og hægri kjálka. Árásin átti sér stað aðfaranótt 3. júlí 2021.

Maðurinn sótti ekki þing, en fram kemur í dómi að hann hafi áður gengist undir þrjár lögreglustjórasáttir fyrir brot gegn umferðarlögum.

Manninum var jafnframt gert að greiða 320 þúsund krónur í málskostnað og 235 þúsund krónur í skaða- og miskabætur, en lögð var fram einkaréttarkrafa um greiðslu um hálfrar milljón króna í skaða- og miskabætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×