Erlent

Hafa komist að sam­komu­lagi um gjörbreytta til­lögu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk freistar þess að fá heita máltíð í Rafah. Hungursneyð er sögð blasa við á Gasa að óbreyttu.
Fólk freistar þess að fá heita máltíð í Rafah. Hungursneyð er sögð blasa við á Gasa að óbreyttu. AP/Fatima Shbair

Bandaríkin og Arabaríkin hafa komist að samkomulagi um orðalag ályktunar sem tekin verður til atkvæðagreiðslu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag, eftir vikulangar samningaviðræður.

Frá þessu greindi Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, í gær en hún sagði breytingar á tillögunni meðal annars fólgnar í því að ekki er talað um „tafarlausa stöðvun átaka“.

Þess í stað er orðalagið á þann hátt að neyðaraðstoð verði tryggð á svæðinu.

Það liggur ekki fyrir hvort öll önnur ríki sem eiga fulltrúa í öryggisráðinu séu fylgjandi tillögunni, til að mynda Rússland. Þá vildi Thomas-Greenfield ekki gefa upp í gær hvað Bandaríkin myndu gera, hvort þau myndu greiða atkvæði með tillögunni eða sitja hjá.

Að minnsta kosti virðist sem Bandaríkjamenn muni ekki beita neitunarvaldi sínu, sem þeir hafa nú þegar gert í tvígang varðandi tillögur um vopnahlé á Gasa.

Samkvæmt Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) héldu loftárásir Ísraelsmanna á Gasa áfram í gær. Þá var einnig barist víðast hvar á svæðinu, nema í Rafah. Hamas gerði einnig loftárásir á svæði í Ísrael.

Hungursneyð er sögð blasa við íbúum Gasa að óbreyttu. Rania Al Abdullah, drottning Jórdaníu, sagði í aðsendri grein í Washington Post, að ástandið líktist martröð og sagði nýtt viðmið að skapast um hvað þætti ásættanlegt, sem væri áhyggjuefni fyrir þessi átök og átök framtíðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×