Erlent

Sex ára dreng flogið á vit­lausan á­fanga­stað

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Drengurinn ætlaði að heimsækja ömmu sína í borginni Fort Myers í Flórída.
Drengurinn ætlaði að heimsækja ömmu sína í borginni Fort Myers í Flórída. EPA

Sex ára bandarískum dreng, sem ferðast átti frá Pennsylvania-ríki til Fort Myers í Flórída með flugfélaginu Spirit Airlines í gær, var komið fyrir í flugvél til Orlandó borgar af fylgdarmanni flugfélagsins. 

CBS hefur eftir talsmanni Spirit að drengnum hafi verið ranglega komið fyrir um borð í flugvél sem flaug honum til borgarinnar Orlandó, en ekki Fort Myers, þar sem hann átti að lenda. Rúmlega 250 kílómetrar eru milli borganna. 

Þá segir talsmaðurinn málið vera í rannsókn. Drengurinn hafi allan tímann verið undir eftirliti fylgdarmanns frá flugfélaginu. Og um leið og upp komst að hann væri í vitlausri flugferð hefði félagið haft samband við foreldra hans. 

Sagði engin börn í flugvélinni

Drengurinn er sagður sex ára gamall og að flugferðin hefði verið hans fyrsta. Tilgangur ferðarinnar hafi verið heimsókn til ömmu hans.

Fréttaveitan WINK TV hefur eftir Mariu Ramos, ömmu drengsins, að atvikið sé eitt það óhugnanlegasta sem hún hefur lent í. 

„Þau sögðu: Nei, hann er ekki í þessu flugi. Hann missti af fluginu. Ég sagði: nei, hann gæti ekki hafa misst af fluginu vegna þess að ég er með innritunarmiðann hans,“ sagði hún við miðilinn. „Ég hljóp inn í flugvélina til flugfreyjunnar og spurði hana: Hvar er barnabarnið mitt? Hann kom til ykkar í Philadelphia. Hún sagði: nei, það voru engin börn í flugferðinni.“

Síðan þá hefur flugfélagið beðið fjölskyldu drengsins afsökunar og er eins og áður segir með málið í rannsókn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×