Íslenski boltinn

„Ég elska veturinn og náttúruna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lidija Kulis í leik með AC Milan í ítölsku deildinni.
Lidija Kulis í leik með AC Milan í ítölsku deildinni. Getty/Marco Luzzani

Þór/KA hefur styrkt sig fyrir átökin i Bestu deild kvenna í fótbolta í sumar en félagið hefur samið við tvo nýja erlenda leikmenn.

Leikmennirnir koma frá Slóveníu og Bosníu-Hersegóvínu en þær eru báðar landsliðskonur sinna þjóða. Þær spila líka báðar framarlega á vellinum og fá það verkefni að bæta sóknarleik Akureyrarliðsins.

32 ára reynslubolti

Lidija Kulis er 32 ára gömul landsliðskona Bosníu-Hersegóvínu og kemur til félagsins frá Split í Króatíu. Áður hafði hún verið um hjá Turbine Potsdam um árabil, en eftir það einnig hjá Glasgow City, AC Milan, Ferencváros og nú síðast Split.

Lidija spilar sem framherji. Í viðtali við Lidiju á miðlum Þór/KA kemur fram að hún sé komin til Íslands bæði vegna fótboltans en eins vegna landsins.

„Ég elska veturinn og náttúruna,“ sagði Lidija um af hverju hún er komin til Íslands.

„Það er ein af ástæðum þess að ég ákvað að koma til Íslands. Auðvitað er svo líka það að upplifa það að spila í íslensku deildinni og að hjálpa liðinu að ná frábærum úrslitum. Ég hef fengið tækifæri til að spila með íslenskum leikmönnum með fyrri félögum sem ég hef verið hjá svo ég hef heyrt margt gott um íslenskan fótbolta og Ísland sem land og hlakka virkilega til að hitta nýju liðsfélagana og starfsfólkið og komast af stað á æfingum,“ sagði hin reynslumikla Lidija Kulis í samtali við miðla Þór/KA.

Hefur heyrt margt jákvætt um lífið og fótboltann á Íslandi

Lara Ivanusa er slóvensk landsliðskona og fimm árum yngri. Hún kemur til félagsins frá Split í Króatíu. Áður hafði hún meðal annars verið hjá Glasgow City og Ferencváros. Lara er sóknartengiliður eða framherji sem hefur skorað tvö mörk fyrir slóvenska landsliðið.

„Ég hef séð að Ísland er fallegt land og margt að sjá. Ég hef líka heyrt margt jákvætt og gott um lífið og fótboltann frá fyrrum liðsfélaga sem spilaði á Íslandi,“ segir Lara. „Ég hlakka til að hitta liðið og mynda sambönd innan og utan vallar og hjálpa liðinu að ná markmiðum á leiktíðinni,“ sagði Lara Ivanusa í samtali við miðla Þór/KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×