Skoðun

Hvers eiga aldraðir að gjalda?

Tómas A. Tómasson skrifar

Ríkisstjórnin hefur boðað byggingu 394 hjúkrunarrýma á næstu 5 árum. Það þarf að byggja 700 hjúkrunarrými til þess að taka á biðlistanum sem þegar hefur myndast. Ef litið er til næstu fimm ára er ljóst að þörfin eftir hjúkrunarrýmum mun aðeins aukast. Núverandi áætlanir ríkisstjórnarinnar í þessum málum eru vanvirðing gagnvart öldruðum. Stjórnvöld halda vísvitandi til streitu stefnu sem mun leiða til alvarlegs skorts á hjúkrunarrýmum fyrir veikt gamalt fólk sem mun ekki hafa annarra kosta völ en að dvelja á Landspítalanum.

Samkvæmt heilbrigðisráðherra mun rekstrakostnaðurinn við þessi 394 hjúkrunarrými verða 6,8 milljarða króna á ári. Þetta fjármagn er ekki í fjármáláætlun ríkisstjórnar. Vonandi verður það leiðrétt strax í vor.

Síðastliðin tíu ár höfum við hlustað á stjórnmálamenn tala um það hvernig hægt er að efla heimahjúkrun til þess að taka á skorti á hjúkrunarrýmum. Ef litið er til hlutfalls landframleiðslu hefur fjármagn til heimahjúkrunar staðið í stað allan þann tíma. Þá er ljóst að heimahjúkrun ein og sér leysir ekki vandan, enda mun fjöldi fólks yfir áttrætt tvöfaldast á næstu fimmtán árum.

Við þurfum að spýta í lófana í þessum málflokki. Það þarf þjóðarátak í byggingu hjúkrunarrýma og við þurfum að hefjast handa strax í dag. Með því að fjárfesta í málefnum eldra fólks, komum við í veg fyrir óviðráðanlegan útgjaldavöxt til lengri tíma ásamt þeim óútreiknalegum þjáningum sem aðgerðarleysi í þessum efnum myndi orsaka.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×