Tónlist

Ís­lendingar „eigi að skammast sín“ fái hann ekki stig í Euro­vi­sion

Samúel Karl Ólason og Eiður Þór Árnason skrifa
Lagið sem Isaak flutti heitir Always on the Run.
Lagið sem Isaak flutti heitir Always on the Run.

Isaak Guderian bar í gær sigur úr býtum í Söngvakeppni Þýskalands og mun því keppa fyrir hönd landsins í Eurovision í Malmö í Svíþjóð. Isaak er hálf-íslenskur en móðir hans er íslensk. 

Hann á von á tólf stigum frá Íslandi þegar hann flytur lagið Always on the Run á stóra sviðinu í Malmö Arena þann 11. maí og kæmi það honum á óvart ef Þýskaland væri hvergi að finna í stigagjöf Íslendinga. Ef svo færi „ættu þau að skammast sín,“ sagði Isaak léttur í bragði í viðtali sem tekið var fyrir keppnina í Þýskalandi.

Hann naut fyrst athygli í Þýskalandi þegar hann tók þátt í X-Factor þar í landi árið 2011 en samkvæmt frétt Eurovisionworld vann Isaak einnig hæfileikakeppnina Show your Talent árið 2021. Isaak er á 28. aldursári. 

Var götulistamaður

Lagið sem Isaak flytur var samið af honum sjálfum, Greg Taro, Kevin Lehr og Leo Salminen. Hann segir textann fjalla um það hvernig hann á það til að einbeita sér að því sem er fallegt í lífi sínu og ýta öllu neikvæðu til hliðar. Þetta sé óheilbrigð hegðun. „Svona myndast stærðarinnar stormviðri og ég hleyp frá því.“ Tengist þetta beint inn í titil lagsins sem þýðist á íslensku sem Alltaf á hlaupum.

Isaak fæddist í bænum Espelkamp í Norðurrín-Vestfalíu í Þýskalandi þar sem búa um 25 þúsund íbúar. Þýskir miðlar greina frá því að hann hafi látið reyna á líf sem götulistamaður þegar hann var yngri og tekið þátt í áðurnefndum hæfileikakeppnum í sjónvarpi. Hann hafi þó fyrst almennilega skotist á stjörnuhimininn með framlagi sínu í undankeppni Þýskalands fyrir Eurovision.

Venju samkvæmt fer framlag Þýskalands beint í lokakeppni Eurovision og þarf Isaak því ekki að vinna hug og hjörtu fólks fyrst á undanúrslitakvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×