Tónlist

Kom öllum að ó­vörum með fleiri lögum í nótt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Taylor Swift hefur haft nóg að gera og nú er loksins nýja platan komin út.
Taylor Swift hefur haft nóg að gera og nú er loksins nýja platan komin út. Ashok Kumar/TAS24/Getty

Ellefta og nýjasta plata bandarísku söngkonunnar Taylor Swift kom út í nótt. Öllum að óvörum hefur söngkonan tilkynnt að platan er tvöföld og fimmtán aukalög á plötunni sem enginn bjóst við.

Þetta kemur fram í umfjöllun Variety en eins og aðdáendur vita heitir platan The Tortured Poets Department: The Anthology. Söngkonan byrjaði á að gefa út fimmtán lög í nótt en tveimur tímum síðar kom hún aðdáendum á óvart.

„Ég hafði skrifað svo mikið undanfarin tvö ár og vildi deila því öllu með ykkur, svo hér er seinni hlutinn af TTPD: THe Anthology. 15 aukalög,“ skrifaði söngkonan í óvæntri færslu á Instagram. „Núna er þetta ekki lengur mín saga, heldur ykkar.“

Gagnrýnendur vestanhafs hafa keppst við að birta umfjallanir um plötuna í morgun. Í umfjöllun bandaríska slúðurmiðilsins PageSix kemur fram að það sé óumdeilanlegt að stærsti innblástur söngkonunnar hafi verið fyrrverandi kærasti hennar leikarinn Joe Alwyn.

Þau voru saman í sex ár og segir í umfjöllun miðilsins að söngkonan greini hispurslaust frá því í lögum sínum að hann hafi reynt sitt besta til að halda sköpunargáfu hennar niðri. Parið hætti saman í fyrra og segir í umfjöllun miðilsins að langt sé síðan Swift hafi gefið út plötu í þessum stíl.

Einsog fram hefur komið hefur frægðarsól söngkonunnar aldrei skinið skærar. Í fyrra var greint frá því að hún hefði hagnast gífurlega af nýjasta tónleikaferðalagi sínu Eras og að hún væri orðin milljarðamæringur. Þá var hún valin manneskja ársins af tímaritinu TIME. Tímaritið líkti henni við tilefnið við veðrið. Hún hafi hreinlega verið alls staðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×