Tónlist

Biðst af­sökunar á brösuglegum Coachella-flutningi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tónlistarhátíðin verður haldin á ný næstu helgi og Grimes heitir því að þá verði tæknin í lagi.
Tónlistarhátíðin verður haldin á ný næstu helgi og Grimes heitir því að þá verði tæknin í lagi. Getty

Kanadíska tónlistarkonan Grimes bað aðdáendur sína afsökunar eftir að tæknilegir örðugleikar komu upp á tónleikum hennar á tónlistarhátíðinni Coachella í Kaliforníu á laugardag. 

Á myndböndum af tónleikum Grimes sést hún æpa í hljóðnemann af reiði nokkrum sinnum vegna örðugleikanna. Að auki stöðvar hún nokkrum sinnum tónlistina og útskýrir fyrir áhorfendum að undirspilin séu of hröð sem geri henni erfitt fyrir.

Í frétt Variety um málið kemur fram að tónlistarkonan hafi síðan yfirgefið sviðið í miðju lagi þegar hún flutti lagið Genesis, sem er eitt af hennar vinsælustu lögum og ekki komið aftur upp á svið.

Netverjar kenndu ýmist í brjósti um hana og lýstu atvikinu sem martröð tónlistarmannsins eða gagnrýndu hana fyrir skipulagsleysi, en stakur miði á hátíðina kostar um sjötíu þúsund krónur. 

Grimes baðst afsökunar á atvikinu á samfélagsmiðlinum X, sem er í eigu fyrrverandi eiginmanns hennar, Elon Musk. 

„Venjulega skipulegg ég hvern einasta hluta tónleika minna sjálf,“ sagði hún í færslunni og útskýrði að til að spara sér tíma hefði hún fengið einhvern annan til þess að setja saman lagalistann sinn og pantað græjur sem væru henni ekki kunnugar. 

Loks sagðist Grimes ætla að sjá til þess að fyrir Coachella-tónleikana næsta laugardag muni hún sjá til þess að öll tækni verði í lagi. Hún hafi lært á mistökunum. 

„Ég læt þetta ekki gerast aftur. Ég er búin að eyða mörgum mánuðum í að undirbúa þessa tónleika, að semja tónlist og búa til leikmynd, og ég viðurkenni að ég er ekki í góðu skapi yfir þessu. En í næstu viku verður þetta fullkomið,“ sagði hún að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×