Fótbolti

Liðsfélagi Sverris Inga í öndunar­vél

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristoffer Olsson er sænskur landsliðsmaður en hann á að baki 47 A-landsleiki.
Kristoffer Olsson er sænskur landsliðsmaður en hann á að baki 47 A-landsleiki. Getty/Linnea Rheborg

Sænski landsliðsmaðurinn Kristoffer Olsson hjá danska félaginu FC Midtjylland veiktist alvarlega á dögunum en félagið greinir frá þessu á vef sínum.

Olsson missti meðvitund á heimili sínum 20. febrúar síðastliðinn og var fluttur á sjúkrahús í Árósum. Hann er enn á spítala og í öndunarvél.

Olsson er 28 ára sænskur landsliðsmaður. Íslenski landsliðsmiðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason spilar með honum hjá Midtjylland. Sverrir var fyrirliði liðsins í síðasta leik.

Í frétt á heimasíðu Midtjylland kemur fram að Olsson sé með bráðasjúkdóm í heila sem sé ekki tengdur sjálfsskaða né öðrum utanaðkomandi þáttum.

Fjölskylda Olsson hefur verið með honum á sjúkrahúsinu sem og hluti af starfsliði FC Midtjylland. Sérfræðingar hafa hugsað vel um hann.

FC Midtjylland biðlar til þess að Kristoffer, fjölskylda hans og læknar fái frið og skilning á þessum erfiðum tímum. Hugur allra hjá Midtjylland eru hjá Kristoffer.

Midtjylland ætlar ekki að segja meira um málið fyrr en að það komi upp nýjar mikilvægar upplýsingar um stöðuna.

Kristoffer Olsson var á sínum tíma í unglingaliði Arsenal en hann fékk sín fyrstu tækifæri í meistaraflokki með Midjtylland. Hann fór síðan til Svíþjóðar, Rússlands og Belgíu en hefur spilað með Midtjylland frá árinu 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×