Enski boltinn

Leik­maður New­cast­le enn eitt fórnar­lamb inn­brots­þjófa

Smári Jökull Jónsson skrifar
Svíinn Alexander Isak hefur verið frábær með Newcastle á tímabilinu.
Svíinn Alexander Isak hefur verið frábær með Newcastle á tímabilinu. Vísir/Getty

Innbrotsþjófar brutust inn á heimili knattspyrnumannsins Alexander Isak á fimmtudagskvöld. Innbrot á heimili leikmanna í ensku úrvalsdeildinni hafa orðið algengari á síðustu árum.

Síðustu misseri hafa fjölmargir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni lent í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að brotist hefur verið inn á heimili þeirra. Jack Grealish, Raheem Sterling og Alex Oxlade-Chamberlain eru á meðal þeirra leikmanna sem brotist hefur verið inn hjá á meðan þeir eru að spila með liðum sínum.

Hinn sænski Alexander Isak er seinasta fórnarlambið. Lögregla var látin vita af innbrotinu klukkan tíu á fimmtudagskvöldið en hann býr í glæsihúsi í Darras Hall hverfinu í nágrenni Newcastle. Aðeins þrír mánuðir eru síðan brotist var inn hjá liðsfélaga hans hjá Newcastle Joelinton en heimili hans er skammt frá þar sem Isak býr. Það innbrot er enn óupplýst.

Talið er að þjófarnir hafi komist inn í húsið í gegnum bakdyr en ekki er vitað hvort einhver var heima þegar innbrotið átti sér stað. Isak lék með Newcastle í gær í 1-0 sigri liðsins á Fulham, aðeins tæpum tveimur sólarhringum eftir að innbrotið átti sér stað.

Isak hefur verið að spila vel fyrir Newcastle á tímabilinu og er búinn að skora 19 mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×