Skoðun

Mann­réttinda­brot

Hjördís Ýrr Skúladóttir skrifar

Góði guð, móðir jörð, æðri máttur eða hver sem öllu ræður.

„Gefðu að ég hafi heilsu og geti sem allra lengst haldið mínu sjálfstæði, gefðu að ég fái ekki svo slæmt MS kast eða fari ekki í síversnun MS sem leiðir af sér mikla skerðingu. Gefðu að ég fái að búa sjálf, velja mér búsetu og að ég haldi minni reisn. Gefðu að mér verði ekki komið fyrir á stofnun sem er ekki mér til hæfis og að ég hafi eitthvað um mína eigin búsetu að segja. Í öllu nafni Amen, eða Om eða annað gott orð sem allar góðar bænir enda á.“

Þetta er bæn mín eftir áhorf á Kveik, fréttaskýringaþátt, á RÚV 9.apríl þar sem fjallað var um skelfilegar staðreyndir um það hvernig fólk nýtur ekki mannréttinda þegar kemur að búsetu.

Árið er 2024 og það er hreint með ólíkindum að fólk sé „geymt“ á stofnunum eða heimilum án þess að það hafi haft val um sína eigin búsetu. Að fólk með fötlun fái ekki viðunandi sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, endurhæfingu eða þjónustu sem hæfir þeirra aldri og getu er hreinlega til háborinnar skammar og við sem velferðarsamfélag verðum að gera betur. Það biður enginn um að verða fyrir eða fæðast með skerðingu, en við eigum öll rétt á að komið sé fram við okkur af virðingu og hafa raunverulegt val.

Við þurfum að gera betur, standa betur vörð um náungann og láta okkur misrétti varða. Það er vissulega vinna í gangi í ráðuneytum og vinnuhópum um lausn á þessu. En þeirri vinnu verður að ljúka sem allra fyrst og leysa þetta brýna vandamáli. Ég held fast í vonina að mitt MS geri það ekki að verkum að mér verði komið fyrir einhversstaðar án þess að ég hafi neitt um það að segja. Allavega ætla ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að svo verði ekki.

Höfundur er formaður MS-félags Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×