Erlent

Starfs­maður hægri­jaðar­flokks hand­tekinn fyrir njósnir fyrir Kína

Kjartan Kjartansson skrifar
Sá handtekni vann fyrir Maximilian Krah, leiðtoga Valkosts fyrir Þýskaland á Evrópuþinginu.
Sá handtekni vann fyrir Maximilian Krah, leiðtoga Valkosts fyrir Þýskaland á Evrópuþinginu. Vísir/EPA

Þýska lögreglan handtók aðstoðarmann Evrópuþingmanns hægrijaðarflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD) sem er grunaður um að njósna fyrir kínversk stjórnvöld. Málið er sagt sérstaklega alvarlegt.

Aðstoðarmaðurinn hefur aðeins verið nefndur Jian G. Hann vinnur fyrir Maximilian Krah, leiðtoga AfD, sem er í framboði fyrir Evrópuþingskosningar sem fara fram í júní. Maðurinn er sakaður um að veita kínversku leyniþjónustunni upplýsingar um samningaviðræður og ákvarðanir Evrópuþingsins og að njósna um kínverska stjórnarandstæðinga í Þýskalandi.

„Hann er sakaður um sérstaklega alvarlegt brot um að vinna fyrir erlenda leyniþjónustu,“ sögðu alríkissaksóknarar í yfirlýsingu.

Sá grunaði var handtekinn í Dresden í gær. Húsleit var gerð í íbúð hans þar og í Brussel. Sama dag voru þrír aðrir þýskir ríkisborgarar handteknir og sakaðir um að því að koma tækni sem gæti verið notuð í hernaðarlegum tilgangi í hendur kínverskra stjórnvalda.

Talsmaður AfD lýsti fréttunum sem „óhugnanlegum“ við Reuters-fréttastofuna. Flokkurinn hafi ekki frekari upplýsingar um málið.

Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði málið háalvarlegt og ef rétt reyndist að einhver hafi njósnað um Evrópuþingið fyrir Kína væri það „árás innan frá á evrópsk lýðræði“, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Kínverska utanríkisráðuneytið vísaði fregnunum á bug og sagði þær tilraun til þess að koma óorði á Kína og halda landinu niðri.


Tengdar fréttir

Útsendarar Rússa sakaðir um skipulagningu árása í Þýskalandi

Lögregluþjónar í Bæjarlandi í Þýskalandi hafa handtekið tvo menn sem grunaðir eru um njósnir fyrir yfirvöld í Rússlandi. Þeir eru meðal annars sakaðir um að skipuleggja skemmdarverk og fyrir að ætla að framleiða sprengiefni, með því markmiði að skaða hernaðaraðstoð Þjóðverja til Úkraínu.

Njósnaskandall skekur Austurríki

Yfirvöld í Austurríki standa frammi fyrir umfangsmiklum njósnaskandal sem bendir til þess að leyniþjónustur Rússlands séu umsvifamiklar í ríkinu og varpar ljósi á slæmt eftirlit hins opinbera. Háttsettur fyrrverandi njósnari í Austurríki var handtekinn á dögunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×