Formúla 1

Mosley segir of mörg mót í Evrópu

Max Mosley
Max Mosley NordicPhotos/GettyImages

Max Mosley, forseti Alþjóða Akstursíþróttasambandsins, segir að fjölga verði mótum í Formúlu 1 í allt að 20 ef keppni verði ekki hætt í fleiri mótum Evrópu. Mosley segir of mörg mót vera haldin í Evrópu og segir restina af heimsbyggðinni þurfa að fá stærri sneið af kökunni.

"Það eru enn of mörg mót í Evrópu og ef við skoðum til að mynda Ólympíuleikana - hefur yfir helmingur þeirra farið fram í Evrópu og það er ekki sanngjarnt. Ef við skoðum keppnishald í Formúlu 1, er hlutfallið enn hagstæðara Evrópu og það á ekki að vera þannig, þar sem markaðurinn er sífellt að stækka utan Evrópu í löndum eins og Indlandi, Kína, Rússlandi og Mið- og suður Ameríku.

Tveimur mótum hefur þegar verið frestað í Evrópu á næsta keppnistímabili, en það eru keppnirnar á Nurburgring í Þýskalandi og Imola í San Marino. 17 keppnir fara fram á næsta tímabili eftir að 18 mót voru á dagskrá í ár og metfjöldi móta var árið þar á undan - 19 talsins. 9 af þessum mótum voru haldin í Evrópu, ef keppnin í Istanbul í Tyrklandi er talin með.

"Við viljum gjarnan sjá aðra keppni í Norður-Ameríku en ef fleiri mót verða ekki lögð niður í Evrópu, þurfum við líklega að fjölga í 20 mót á tímabilinu," sagði Mosley, en Bernie Ecclestone hefur þegar lýst því yfir að líklegt verði að keppt verði í Suður-Kóreu fljótlega - jafnvel strax árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×