Erlent

Dregur úr dánar­tíðni kórónu­veiru­smitaðra

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Johans Gate í Osló.
Karl Johans Gate í Osló. Getty

Færri kórónuveirusmitaðir einstaklingar láta nú lífið af völdum veirunnar en í vor. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við Oxford-háskóla í Bretlandi, sem byggir á gögnum frá þýsku hagstofunni. Þróunin nái einnig til eldri einstaklinga sem hafa smitast.

Norska blaðið Verdens Gang segir frá því að vísindamennirnir hafi borið saman tölur um dánartíðni þeirra sem hafa greinst með smit í mars annars vegar og ágúst hins vegar.

Í upphafi heimsfaraldursins var dánartíðnin nokkuð stöðug borin saman við fjölda smita. Nú hafi dregið úr hlutfalli þeirra smitaðra sem láta lífið, þrátt fyrir að smittíðnin hafi aukist.

Hlutfall smitaðra einstaklinga, eldri en áttatíu ára, sem létust var 29 prósent síðustu vikuna í apríl. Næstu vikuna var hlutfallið 27 prósent, en frá miðjum júlí hefur hlutfallið verið um 11 prósent. Fækkun látinna nemur því hlutfallslega 61 prósent á tímabilinu.

Sé litið til aldurshópsins 60 til 79 ára hefur dánartíðni smitaðra farið úr níu prósentum í mars/apríl í tvö prósent í júlí/ágúst.

Line Vold hjá Lýðheilsustofnun Noregs segir í samtali við Verdens Gang að niðurstöður rannsóknarinnar rími vel við þá þróun sem hafi orðið í Noregi. Hún segir þróunina meðal annars skýrast af auknum fjölda smitaðra í hópi ungra, og sömuleiðis að fleiri greinast með mildari einkenni Covid-19.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.