Erlent

Dómsdagsspár vegna Afríku og Covid-19 rættust ekki

Samúel Karl Ólason skrifar
Lang flest staðfest smit hafa greinst í Suður-Afríku. Þar hafa líka flestir dáið.
Lang flest staðfest smit hafa greinst í Suður-Afríku. Þar hafa líka flestir dáið. AP/Themba

Vísindamenn velta nú vöngum yfir því af hverju Afríka virðist hafa sloppið svo vel frá heimsfaraldri nýju kórónuveirunnar. Sérfræðingar höfðu sérstakar áhyggjur af heimsálfunni í upphafi faraldursins og vöruðu yfirvöld Afríkuríkja við og sögðu þau að búa sig undir það versta.

Óttast var að heilbrigðiskerfi jafnvel ríkustu Afríkuríkja hefðu ekki burði til að takast á við umfangsmikinn faraldur, skima fyrir veirunni og í heimsálfunni er mikið um þéttbýl fátækrahverfi.

Til marks um áhyggjurnar spáði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) því í apríl að 300 þúsund Afríkubúar gætu dáið á árinu. Áður hafði Tedros Adhanom Ghebreysus, yfirmaður WHO, lýst Afríku sem púðurtunnu og sagði að yfirvöld heimsálfunnar þyrftu að búa sig undir það versta.

Dómsdagsspár þessar rættust ekki og vísindamenn skilja ekki af hverju. Samkvæmt Reuters þykir víst að bæði smitaðir og dánir séu mun fleiri en opinberar tölur segja til um. Skimun er til að mynda mun minni en víðast hvar annarsstaðar.

BBC sagði frá því um helgina að faraldurinn í Afríku virtist þegar hafa náð hámarki. Fjöldi nýsmitaðra á degi hverjum hefur verið að lækka í tvo mánuði, þó þeim hafi haldið áfram að fjölga í einhverjum ríkjum.

Samkvæmt tölum WHO hafa alls 1,4 milljónir smitast í Afríku og 35 þúsund dáið. Langflestir, eða 671 þúsund, hafa greinst smitaðir í Suður-Afríku.

Í Suður-Afríku dóu um 17 þúsund fleiri frá maí til júlí en gerðu á undanförnum árum að meðaltali. Aukningin er um 59 prósent og þykir það til marks um að mun fleiri eldri borgarar hafi dáið úr Covid-19 en opinberar tölur segja til um.

Þrátt fyrir það virðist heimsálfan hafa sloppið vel og er verið að skoða ýmsar ástæður, samkvæmt frétt Reuters.

Heilt yfir eru íbúar Afríku ungir og þykir líklegt að það hafi hjálpað til. Þá teygði veiran anga sína til Afríku seinna en víðast hvar annarsstaðar og yfirvöld þar fengu tíma til að undirbúa sig.

Vísindamenn eru einnig að kanna hvort að bóluefni við berklum, sem hafi verið gefið ungum íbúum Afríku hafi hjálpað til við að draga úr dánartíðni í Afríku. Önnur kenning snýr að því að aðrir faraldrar kórónuveira í Afríku hafi byggt upp varnir meðal íbúa.


Tengdar fréttir

Heilbrigðisstarfsmenn mæta áreiti og rasisma

Faraldur nýju kórónuveirunnar virðist nú herja á strjálbýl miðríki Bandaríkjanna af miklum krafti. Íbúar þessara ríkja eru margir hverjir andsnúnir sóttvörnum eins og grímum en á sama tíma er álag á sjúkrahús, skóla og aðrar stofnanir að aukast til muna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×