Erlent

Biden sagður undir þrýstingi að gera breytingar á Hæsta­rétti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mótmæla í kjölfar ákvarðana Hæstaréttar í síðustu viku.
Efnt var til mótmæla í kjölfar ákvarðana Hæstaréttar í síðustu viku. AP/AIDS Healthcare Foundation/Jordan Strauss

Joe Biden Bandaríkjaforseti er nú sagður sæta auknum þrýstingi innan Demókrataflokksins um að ráðast í breytingar á Hæstarétti. Forsetinn hefur hingað til neitað að taka það til skoðunar.

Dómstóllinn hefur sætt harðri gagnrýni Demókrata eftir röð afar umdeildra ákvarðanna en hann hefur á síðustu viku tekið fyrir jákvæða mismunun í háskólum landsins, gert út um áætlanir Biden um niðurfellingu námslánaskulda og opnað á mismunun fyrirtækja á grundvelli kynhneigðar.

Þá er ónefnd ákvörðun réttarins að fella úr gildi niðurstöðuna í Roe gegn Wade, sem hefur haft gríðarleg áhrif á aðgengi kvenna að þungunarrofi um öll Bandaríkin.

Biden hefur verið afar gagnrýninn og harðorður vegna ofangreindra dóma en ekki viljað ganga svo langt að koma til móts við áköll margra flokkssystkina sinna, sem hafa meðal annars lagt til að dómurunum verði fjölgað, að skipunartími þeirra verði takmarkaður og þeir neyddir á eftirlaun við ákveðinn aldur.

Eftir að dómstólinn ákvað að koma í veg fyrir niðurfellingu námslánaskuldanna lögðu tveir þingmenn Demókrataflokksins fram frumvarp sem miðar að því að takmarka skipunartíma Hæstaréttardómara við átján ár.

Þeir segja íhaldssamir dómarar dómstólsins hafa grafið undan lögmæti hans með nýlegum ákvörðunum og þá hafi fregnir af óhóflegum gjöfum sem þeir hafa þáð ekki bætt úr málum.

Congressional Progressive Caucus, hópur fleiri en 100 þingmanna, hefur kallað eftir því að dómurum verði fjölgað. Hugmyndirnar eru sagðar njóta stuðnings að minnast kosti nokkurra öldungadeildarþingmanna.

Þær njóta einnig stuðnings svartra leiðtoga á borð við Al Sharpton og Martin Luther King III.

Íhaldsmenn eru hins vegar sagðir horfa þannig á málin að dómstóllinn sé aðeins rétt að hefja leiðréttingu á vinstri slagsíðu sem hafi verið viðvarandi í marga áratugi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×