Formúla 1

Brad Pitt tók upp atriði í kvikmynd á for­múlu­keppninni um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brad Pitt í fullum skrúða í upptökunum á Silverstone um helgina.
Brad Pitt í fullum skrúða í upptökunum á Silverstone um helgina. AP/Christian Bruna

Það var nóg að gerast á Silverstone kappakstursbrautinni um helgina og þá erum við ekki bara að tala um breska formúlu eitt kappaksturinn sem ávallt fær sviðsljósið.

Max Verstappen fagnaði sigri í Silverstone kappakstrinum en hann var þar að vinna sjötta kappaksturinn í röð sem skilar honum 99 stiga forskoti í keppni ökumanna. Verstappen er langt kominn með að tryggja sér þriðja heimsmeistaratitilinn í röð.

Áhorfendur fengu ekki aðeins að fylgjast með Verstappen fara á kostum á brautinn því á meðan keppninni stóð þá var bandaríski stórleikarinn Brad Pitt að taka upp atriði í formúlu eitt myndinni sinni.

Myndin mun heita Apex og er hinn 59 ára gamli Pitt í aðalhlutverki. Hann leikur þar ökumanninn Sonny Hayes og sást spranga um í hvítum ökumannabúning í miðri formúlukeppni um helgina.

Senurnar sem voru teknar upp á Silverstone voru teknar upp í sérstökum bílskúr sem var byggður við brautina og þá voru akstursatriði tekin upp á milli keppnishluta í formúlu eitt kappakstrinum sjálfum.

Pitt á þarna að leika eldri ökumann sem var hættur að keppa í F1 en snýr til baka til að aðstoða ungan og upprennandi ökumann. Myndin er auðvitað enn í tökum og það er ekki búist við því að hún komi í kvikmyndahús fyrr en í lok næsta árs eða í byrjun ársins 2025.

Apple TV er að framleiða myndina sem mun enda inn á streymisveitunni eftir að hún hættir í bíó.

Það eru enn frekari formúlu eitt tengingar því sjöfaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton er framleiðandi af þessari myndi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×