Formúla 1

Sainz á ráspól í ítalska kappakstrinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Carlos Sainz verður á ráspól í ítalska kappakstrinum á morgun.
Carlos Sainz verður á ráspól í ítalska kappakstrinum á morgun. Vísir/Getty

Carlos Sainz, ökumaður Ferrari, verður á ráspól þegar ljósin slökkna og farið verður af stað í ítalska kappakstrinum í Formúlu 1 á morgun. Tvöfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen ræsir annar.

Sainz og liðsfélagi hans, Charles Leclerc, voru eðlilega með stuðning áhorfenda á bakvið sig, enda er ítalski kappaksturinn heimavöllur Ferrari.

Lokahluti tímatökunnar var æsispennandi þar sem Sainz, Leclerc og Verstappen börðust um ráspólinn fram á síðasta hring. Leclerc kláraði sinn síðasta hring fyrstur á tímanum 1:20,361, en Verstappen kom stuttu síðar og bætti tíman um 0,054 sekúndur og hirti ráspólinn af Leclerc.

Sainz átti þó síðasta orðið þegar hann kom í mark á tímanum 1:20,294, aðeins 0,014 sekúndum hraðari en Verstappen, og tryggði sér ráspólinn.

Verstappen verður því á milli Ferrari-mannana tveggja þegar farið verður af stað á morgun, en liðsfélagi hans hjá Red Bull, Sergio Perez, ræsir fimmti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×