Tónlist

Níð­þunga dóms­­dags­rokks­sveit rekur á strendur landsins

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Flutningur Bongripper á tónlist sinni á sviði er talinn trompa stúdíóútgáfur þeirra í þyngslum.
Flutningur Bongripper á tónlist sinni á sviði er talinn trompa stúdíóútgáfur þeirra í þyngslum. bongripper

Dómsdagsrokkssveitin Bongripper leikur fyrir hausaskaki fimmtudaginn 26. október á Gauknum, í fyrsta sinn á Íslandi.

Koma sveitarinnar hlýtur að teljast hvalreki fyrir unnendur stefnunnar hérlendis og hljómur sveitarinnar verður jafnframt að teljast hvalvaxinn. Það stafar að miklu leyti af því að gítarar og bassi eru stilltir niður um næstum áttund (í F) og að mikil natni er lögð í að útkoman úr slíkri bassasúpu skili sér áheyrilega til tónleikagesta. 

Enginn söngvari er í sveitinni, lögin eru hæg og meiri líkur en minni að þau séu lengri en tíu mínútur. Jafnvel miklu lengri, en fyrsta útgáfa sveitarinnar innihélt einungis 79 mínútna langa lagið The Great Barrier Reefer. Sagan segir að þeim hafi langað að skáka Dopesmoker, sem er 63 mínútna langt lag eftir goðsagnakenndu hljómsveitina Sleep, og hafi sett markið á 80 mínútna hámarkslengd geisladiska.

Haft hefur verið eftir meðlimum bandsins að þeir hafi eitt sinn verið dauðarokks hljómsveit en eftir að söngvarinn hætti og tvífetill trommarans brotnaði var ákveðið að skipta um takt og hægja töluvert á allri músíkinni.

Árið 2010 jukust vinsældir sveitarinnar til muna með tilkomu plötunnar Satan Worshipping Doom. Hljómurinn var orðinn meira einkennandi fyrir sveitina, bitmeiri og með dassi af svartmálmsáhrifum.

Til stuðnings Bongripper koma fram reykvísku sveitirnar Morpholith og Slor, hvor annarri þyngri og hægari. ReykjaDoom (áður Doomcember) stendur fyrir tónleikunum.

Morpholith og magnaraboxin.Verði ljós

Morpholith eru undir áhrifum frá skynvíkkunarrokki í sínum níðþunga dómsdagshægagangi, og reisa meðlimir magnaramúr fyrir hverja tónleika. Sækadelían er einnig skammt undan hjá Slor, en hljómurinn örlítið teppalagðari og undir meiri áhrifum frá bandarísku eðju- og eyðimerkurrokki.

Miða má finna á tix.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×