Innlent

Sækja um leyfi að upp­byggingu jarð­hita­virkjunar í Ölfus­dal

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá vinstri: Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar OR, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Frá vinstri: Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar OR, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Mynd/Einar Örn Jónsson

Orkuveita Reykjavíkur, sveitarfélagið Ölfus og Títan tilkynntu í dag um áform um að sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi með samstarf um nýtingu jarðhita í Ölfusdal í huga.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag var skrifað undir viljayfirlýsingu um verkefnið en fáist rannsóknarleyfið með forgang að nýtingu er fyrirhugað að skrifa undir viljayfirlýsingu um nýtingu jarðhitaauðlindarinnar til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni með ábyrgum hætti og lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi. Einnig er lögð áhersla á að afurðir frá virkjuninni verði nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.

„Það skiptir öllu máli að allir aðilar vinni saman til þess að flýta orkuskiptum og tryggja orkuöryggi á svæðinu og landinu öllu. Ég fagna því að sveitarfélagið Ölfus og Orkuveitan nái saman um að halda áfram með þessi mikilvægu verkefni í góðu samkomulagi við hlutaðeigandi aðila,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fundinum. 

Vilja skapa verðmæti

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir sveitarfélagið hafa um nokkurt skeið unnið að því að auka velferð á grundvelli umhverfisvænnar verðmætasköpunar. 

„Ef við viljum verðmætasköpun á borð við það sem við erum nú að vinna að þá þarf að sækja orkuna og það ætlum við að gera á forsendum þeirra umhverfissjónarmiða sem við viljum standa fyrir í samstarfi við okkar góðu samstarfsaðila í Orkuveitu Reykjavíkur,“ sagði Elliði

Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir að öll áhersla verði lögð á fullnýtingu jarðhitaauðlindarinnar þar sem afurðir frá virkjuninni verða meðal annars nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×