Erlent

Neyðar­á­stand vegna skógar­elda í Síle

Lovísa Arnardóttir skrifar
Myndin er tekin á Beagle Channel svæðinu í Vina del Mar, Valparaiso héraði.
Myndin er tekin á Beagle Channel svæðinu í Vina del Mar, Valparaiso héraði. Vísir/EPA

Í það minnsta 51 er látið í skógareldum í Valparaíso héraði í Síle. 45 fundust látin en sex létust vegna brunasára á spítala. Forseti landsins, Gabriel Boric, hefur lýst yfir neyðarástandi og sagðist ætla að nýta öll þau úrræði sem honum standa til boða til að takast á við ástandið.

Yfirvöld hafa beðið fólk að ferðast ekki til svæðisins en allt að sex þúsund heimili hafa orðið fyrir einhvers konar áhrifum vegna skógareldanna. Sett var á útgöngubann á ákveðnum svæðum í gær til að tryggja för viðbragðsaðila um svæðið. Þá hefur fólki verið bannað að kveikja elda og nota vélar sem framleiða hita.

Aldrei hafa fleiri látið lífið í skógareldum í landinu samkvæmt frétt BBC en margir sem voru á svæðinu voru þar í sumarfríi. Svæðið er í um 116 kílómetra fjarlægð frá höfuðbörg Síle, Santiago, og er vinsæll ferðamannastaður.

Heilbrigðisyfirvöld í Valparaíso héraði hafa gefið út viðvörun vegna ástandsins og bannað allar valkvæðar skurðaðgerðir. Þá hafa tímabundnir vettvangs-spítalar verið settir upp og læknanemar á lokaári kallaðir til starfa.

1.400 slökkviliðsmenn eru við störf vegna skógareldanna. Vísir/EPA

Viðbragðsaðilar hafa átt í erfiðleikum með að komast á sum svæði og sagði innanríkisráðherra landsins, Carolina Tohá, að fjöldi látinna gæti orðið mikið hærri á næstu klukkutímum. Allt að 1.400 slökkviliðsmenn eru við störf og hefur herinn verið kallaður til að aðstoða.

Banvænir skógareldar geisuðu einnig í fyrra í Síle.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×