Erlent

Banda­ríkja­menn leggja til að öryggis­ráðið krefjist vopna­hlés

Árni Sæberg skrifar
Linda Thomas-Greenfield, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Linda Thomas-Greenfield, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. David Dee Delgado/Getty

Fulltrúar Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafa samið tillögu að ályktun öryggisráðsins þar sem stuðningi við tímabundið vopnahlé fyrir botni Miðjarðarhafs er lýst yfir.

Þetta segir í frétt fréttaveitunnar Reuters, sem hefur tillöguna undir höndum.

Þar segir að Bandaríkin hafi hingað til viljað forðast að orðið vopnahlé komi fyrir í ályktunum öryggisráðsins. Nú leggi þau til að öryggisráðið lýsi yfir stuðningi við tímabundið vopnahlé, sem koma ætti á eins fljótt og auðið er.

Sagðist myndi beita neitunarvaldi

Fulltrúar Alsírs í öryggisráðinu óskuðu eftir því á laugardag að ráðið myndi greiða atkvæði á fimmtudag um tillögu Alsírs að ályktun um tafarlaust vopnahlé í átökum Ísraels og Hamas-samtakanna. 

Linda Thomas-Greenfield, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, tilkynnti um helgina að Bandaríkin myndu beita neitunarvaldi sínu ef til atkvæðagreiðslu kæmi. Bandaríkin búa yfir neitunarvaldi í öryggisráðinu sem eitt fimm ríkja með fast sæti í ráðinu. Þau hafa í tvígang beitt því frá því að yfirstandandi átök brutust út fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ítreka áhyggjur af innrás í Rafa

Ísraelsher hefur tilkynnt að hann muni láta til skarar skríða í Rafa á suðurhluta Gasa fyrir Ramadan ef Hamas-samtökin láta ekki þá gísla sem enn eru í haldi samtakanna lausa. Ramadan, föstumánuður múslima, hefst 10. mars.

Áform Ísraela hafa verið harðlega gagnrýnd og bent hefur verið á að gríðarlegt mannfall almennra borgar myndi fylgja þeim. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt áformin er Joe Biden Bandaríkjaforseti. Hann hefur hvatt Ísraela til að tryggja það að almennum borgurum yrði bjargað frá svæðinu fyrir innrásina.

Engin áætlun um slíkt liggur fyrir og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði um helgina ekki koma til greina að hætta við innrásina.

Í frétt Reuters segir að tillaga Bandaríkjanna feli í sér að öryggisráði álykti að meiriháttar árás inn í Rafa nú myndi fela í sér frekari mannfall meðal almennra borgara og að fleiri þeirra yrðu hraktir á flótta, meðal annars til nágrannalanda Palestínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×