Erlent

Óttast um mör­gæsir vegna banvænnar fugla­flensu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mörgæsir þykja ekki góðar í tveggja metra reglunni.
Mörgæsir þykja ekki góðar í tveggja metra reglunni. Getty/Sebnem Coskun

Banvænt afbrigði fuglaflensu hefur greinst á Suðurskautinu í fyrsta sinn. Vísindamenn óttast um mörgæsir og önnur dýr sem finnast hvergi annars staðar á jörðinni.

Vísindamenn staðfestu um helgina að afbrigði fuglaflensu sem kallast H5N1 fannst í hræjum tveggja fugla en þetta afbrigði hefur valdið dauða gífurlegra margra fugla víða um heim á undanförnum árum, bæði villt dýr og alifugla.

Fuglaflensan hefur nú teygt anga sinna til allra heimsálfa heimsins, að Ástralíu undanskilinni.

Flensan hefur einnig greinst í spendýrum, eins og selum og öðrum dýrum sem koma saman í fjörum, samkvæmt frétt Washington Post.

Mörgæsir gætu verið sérstaklega viðkvæmar gagnvart fuglaflensu, þar sem veiran hefur aldrei greinst á Suðurskautinu áður. Þess vegna er ólíklegt að þær beri nokkurs konar mótefni. Þá halda hundruð þúsunda mörgæsa til í stórum nýlendum og í miklu návígi við aðrar.

Þá ógnar hækkandi sjávarhiti fyrir sunnan og tilheyrandi samdráttur á hafís þegar tilvist mörgæsa. Varað hefur verið við því að mörgæsir standi mögulega frammi fyrir útrýmingu vegna veðurfarsbreytinga.

Í frétt Reuters segir að vísindamenn frá Argentínu og Spáni hafi unnið saman að því að greina sýni úr áðurnefndum hræjum fugla sem fundust á Suðurskautinu, fyrr á þessu ári.

Það var í kjölfar þess að sagt var frá því í lok síðasta mánaðar að dauðar mörgæsir hefðu fundist, sem talið var að hefðu drepist vegna fuglaflensu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×