Erlent

Haley sigraði Trump í Was­hington D.C.

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Haley er fyrsta konan til að sigra í forkosningum Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningar.
Haley er fyrsta konan til að sigra í forkosningum Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningar. AP/Reba Saldanha

Nikki Haley varð í gær fyrsta konan til að sigra í forkosningum Repúblikanaflokksins í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum þegar hún fór með sigur af hólmi gegn Donald Trump í Washington D.C.

Haley tryggði sér 62,9 prósent atkvæða gegn 33,2 prósentum forsetans fyrrverandi. Þar með tryggði hún sér nítján kjörmenn fyrir landsfund flokksins sem fram fer í júlí en heildarfjöldi kjörmanna á þinginu verður 1.215.

Olivia Perez-Cubas, talskona Haley, sagði eftir sigurinn í gær að það kæmi ekki á óvart að þeir Repúblikanar sem þekktu best til báknsins í Washington hefðu hafnað Donald Trump og glundroðanum sem honum fylgdi.

Haley á enn á brattann að sækja í kapphlaupinu við Trump en hann tryggði sér 39 kjörmenn í forvalinu í Michigan á laugardaginn. Þá er honum spáð öruggum sigri í næstum öllum kosningunum sem framundan eru og mun raunar líklega tryggja sér útnefninguna á þriðjudag, þegar forval fer fram í fimmtán ríkjum.

Haley hefur sagst munu halda ótrauð áfram, að minnsta kosti fram yfir þriðjudag. Hún tók undir hróp stuðningsmanns á kosningafundi á föstudag, þegar viðkomandi kallaði að Trump gæti ekki lagt Biden. Haley hefur ítrekað haldið því sama fram; að hún sé sú eina sem geti komið í veg fyrir annað kjörtímabil Biden.

Talsmaður Trump átti að sjálfsögðu svar við sigri Haley í Washington og sagði að á sama tíma og kjósendur út um allt land hefðu hafnað Haley hefðu kjósendur í Washington D.C. krýnt hana „drottningu fenjana“. 

Þess ber að geta í þessu sambandi að Trump hefur ítrekað talað um að „hreinsa þurfi fenið“ í Washington, það er að segja meinta pólitíska spillingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×