Erlent

Lífs­tíðar­fangelsi fyrir nauðgun og morð við Neuschwanstein-kastala

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn lokkaði konurnar af alfaraleið við Neuschwanstein-kastala, nauðgaði annarri þeirra og kyrkti og kastaði hinni í gjótu.
Maðurinn lokkaði konurnar af alfaraleið við Neuschwanstein-kastala, nauðgaði annarri þeirra og kyrkti og kastaði hinni í gjótu. Getty/Karl-Josef Hildenbrand

Bandarískur karlmaður hefur verið sakfelldur fyrir að hafa nauðgað og myrt ferðakonu og reynt að drepa vinkonu hennar nærri Neuschwanstein-kastalanum í Þýskalandi. Maðurinn var dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Morðið framdi hann í júní í fyrra og vakti málið heimsathygli. Málið vakti stérstaklega athygli í ljósi þess hversu margir ferðamenn voru staddir á svæðinu þegar maðurinn framdi árásina. Margir tóku ljósmyndir og einhverjir streymdi því í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum þegar konurnar tvær, bandarískir túristar, voru fluttar á sjúkrahús með þyrlu. 

Maðurinn, sem er 31 árs gamall ferðamaður frá Michigan í Bandaríkjunum og er kallaður Troy B af þýskum dómstólum, er sagður hafa vingast við samlöndur sínar nærri Maríubrúnni. Brúin er afskaplega falleg og vinsæll staður fyrir ferðamenn til að stoppa og taka myndir af sér, með kastalann í bakgrunni. Troy er svo sagður hafa lokkað dömurnar úr alfaraleið með því vilyrði að hann þekkti betri stað, fallegri til myndatöku þar sem færri væru á ferð.

Þar hafi hann, í skjóli klettanna sem umkringja kastalann, kyrkt og nauðgað 21 árs gamalli konunni og kastað 22 ára gamalli vinkonu hennar niður í 100 metra djúpa gjá þegar hún reyndi að koma hinni til bjargar. Sú síðarnefnda lifði af fyrir tilstilli trjágreinar, sem hún lenti á á leiðinni niður, en slasaðist alvarlega.

Eftir að hafa nauðgað hinni 21 árs gömlu kastaði Troy henni ofan í gjánna. Hún lést á sjúkrahúsi nokkrum klukkustundum síðar. Að mati réttarmeinalækna voru kyrkingarnar nóg til að bana konunni. Fram kemur í umfjöllun Guardian um málið að maðurinn hafi, á meðan á átökunum stóð, gripið í símann sinn, sem var fullur af ofbeldisfullu klámi, til þess að taka sig upp kyrkja konuna með beltinu sínu. Maðurinn var handtekinn síðar þennan sama dag eftir umfangsmikla leit lögreglu.

Niðurstaða dómara í Kempten í Suður-Þýskalandi var sú að Troy hafi gerst sekur um morð af ásetningi (e. aggravated), sem þýðir að hann mun ekki fá reynslulausn eftir 15 ár í fangelsi eins og gerist sjálfkrafa fyrir manndráp. Troy neitaði ekki að hafa myrt konuna en mótmælti því að það hafi verið af ásetningi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×