Erlent

TikTok-frumvarpið fer létti­lega gegnum fulltrúadeildina

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrirtækið TikTok er skráð í Bandaríkjunum en frumvarpið felur í sér að kínverskir eigendur þessa gífurlega vinsæla samfélagsmiðils, ByteDance, þurfa að selja starfsemina, innan 180 daga eftir að frumvarpið verður að lögum.
Fyrirtækið TikTok er skráð í Bandaríkjunum en frumvarpið felur í sér að kínverskir eigendur þessa gífurlega vinsæla samfélagsmiðils, ByteDance, þurfa að selja starfsemina, innan 180 daga eftir að frumvarpið verður að lögum. AP/Damian Dovarganes

Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur samþykkt frumvarp sem ætlað er að koma böndum á samfélagmiðilinn TikTok. Frumvarpið fer nú til öldungadeildarinnar, þar sem framtíð þess þykir óljós.

352 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu og 65 sögðu nei. Einn sat hjá.

Fyrirtækið TikTok er skráð í Bandaríkjunum en frumvarpið felur í sér að kínverskir eigendur þessa gífurlega vinsæla samfélagsmiðils, ByteDance, þurfa að selja starfsemina, innan 180 daga eftir að frumvarpið verður að lögum. Annars verður samfélagsmiðillinn bannaður.

Eins og fram kemur í frétt Washington Post hafa ráðamenn í Bandaríkjunum margir hverjir áhyggjur af tengslum ByteDance við Kommúnistaflokk Kína. Flokkurinn er sagður geta notað miðilinn til að afla gagna um Bandaríkjamenn og hafa áhrif á pólitískar skoðanir þeirra.

Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast aldrei hafa afhent yfirvöldum í Kína gögn um bandaríska notendur og að ef þeirra yrði krafist, yrði beiðninni hafnað.

Um 170 milljónir Bandaríkjamanna nota TikTok að staðaldri.

Athygli vekur að einungis fimmtán Repúblikanar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir á dögunum að hann væri mótfallinn frumvarpinu.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að skrifa undir frumvarpið, verði það einnig samþykkt í öldungadeildinni. Framtíð þess þar er þó óljós, eins og áður hefur komið fram.

Hvaða öldungadeildarþingmaður sem er getur stöðvað framgöngu frumvarps og þingmaðurinn Rand Paul hefur haldið því fram að hann muni grípa til slíkra aðgerða. Hann telur frumvarpið brjóta gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Tveir æðstu meðlimir leyniþjónustumálanefndar öldungadeildarinnar, þeir Mark Warner úr Demókrataflokknum og Marco Rubio úr Repúblikanaflokknum, hafa lýst því yfir að þeir styðji frumvarpið.

Ráðamenn í Kína hafa brugðist reiðir við ætlunum Bandaríkjamanna og hafa hótað því að koma í veg fyrir sölu ByteDance á TikTok.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagði í morgun að Bandaríkjamenn hefðu aldrei fundið sannanir fyrir því að TikTok ógnaði þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Hann sakaði Bandaríkjamenn um fautaskap og sagði að verði frumvarpið að lögum myndi það koma niður á Bandaríkjunum til lengri tíma með því að grafa undan trú fjárfesta á bandaríska kerfið.

Bandarískir samfélagsmiðlar eins og X og Facebook eru bannaðir í Kína.


Tengdar fréttir

TikTok eyði­leggi sam­hljóm þjóðarinnar

Fjarskipta- og upplýsingatækniráðherra Nepal hefur gefið út að samfélagsmiðillinn TikTok verði héðan í frá bannaður þar. Segir ráðherrann að miðillinn sé notaður til þess að dreifa efni sem skemmir fjölskyldur og eyðileggur „samhljóm“ þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×