Fótbolti

Neymar sagður hafa mætt fullur á æfingar PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Neymar með Lionel Messi þegar þeir léku saman hjá Paris Saint-Germain.
 Neymar með Lionel Messi þegar þeir léku saman hjá Paris Saint-Germain. Getty/Tim Clayton

Franska stórblaðið L'Equipe segir ekki fallegar sögur af hegðun brasilíska knattspyrnumannsins Neymars undir lok tíma hans hjá franska félaginu Paris Saint Germain.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að Neymar hafi mætt fullur á æfingar franska liðsins.

Neymar var í sex ár hjá Parísarfélaginu og varð fimm sinnum franskur meistari með liðinu. Hann fór til Al Hilal í Sádí Arabíu síðasta sumar en missti af stórum hluta tímabilsins eftir að hafa slitið krossband í leik með landsliðinu.

Blaðamaður L'Equipe segir að undir lok tíma hans hjá PSG hafi Neymar mætt undir áhrifum áfengis á æfingar. Hann er líka sagður hafa lent í slagsmálum við liðsfélaga sína.

Neymar er meðal annars sakaður um það í greininni að hafa slegið unglingaliðsleikmanninn Ismael Gharbi þegar hann lá í jörðinni.

Samband Neymars og Kylian Mbappé er sagt hafa verið slæmt. „Í byrjun þá kunni Kylian vel við Neymar en eftir að þeir unnu saman á hverjum degi þá missti hann alla virðingu fyrir honum,“ sagði ónefndur starfsmaður Paris Saint Germain.

Neymar lék 173 leiki fyrir PSG og var með 118 mörk og 77 stoðsendingar í þeim. Það eru fleiri mörk og stoðsendingar en hann afrekaði fyrir Barcelona í 186 leikjum (105 mörk og 76 stoðsendingar).

Neymar var aðeins búinn að spila fimm leiki og skora eitt mark fyrir Al Hilal þegar hann meiddist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×