Fótbolti

Skulda Ronaldo meira en milljarð og hafa kannski ekki efni á Alberti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnaði sigri á móti Juventus í réttarsalnum.
Cristiano Ronaldo fagnaði sigri á móti Juventus í réttarsalnum. Getty/Giuseppe Maffia

Ítalska félagið Juventus var í gær dæmt til að gera upp við fyrrum leikmann liðsins, Cristiano Ronaldo.

Ronaldo vann nefnilega mál gegn Juve sem þarf að borga honum 9,7 milljónir evra í vangoldin laun að viðbættum vöxtum eða rúma 1,4 milljarða íslenskra króna.

Þrír dómarar, Gianroberto Villa, Roberto Sacchi og Leandro Cantamessa, úrskurðuðu í deilu Ronaldo og Juventus eins og kemur fram í frétt Gazzetta dello Sport. Uppruni málsins eru launagreiðslur sem var seinkað en Ronaldo fékk síðan aldrei borgaðar.

Ronaldo fór til Manchester United árið 2021 eftir þrjú ár hjá ítalska félaginu. Ronaldo er nú leikmaður Al Nassr í Sádí-Arabíu.

Það má búast við því að þessi reikningur muni hafa mikil áhrif á getu Juventus til að kaupa nýja leikmenn á næstunni. Rekstur fótboltafélaga á Ítalíu stendur tæpt og þetta er því högg.

Það er því ólíklegt að félagið geti keypt Albert Guðmundsson frá Genoa eins og ítalskir miðlar hafa verið að slúðra mikið um.

Hingað til hafa ítalskir miðlar skrifað um kapphlaup um Albert á milli enska félagsins Tottenham og ítalska félagsins Juventus en í síðustu fréttum hefur Internazionale einnig verið nefnt sem mögulegur áfangastaður fyrir íslenska landsliðsframherjann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×