Erlent

Fyrstu loft­á­rásir Ísraela í Íran frá 1979

Samúel Karl Ólason skrifar
Stórt plakat sem sett var upp í Tehran í Íran eftir árásina síðustu helgi.
Stórt plakat sem sett var upp í Tehran í Íran eftir árásina síðustu helgi. EPA/ABEDIN TAHERKENAREH

Ísraelskir flugmenn skutu þremur eldflaugum að ratsjárstöð í Íran í nótt. Eldflaugunum var skotið utan lofthelgi Írans en þetta er í fyrsta sinn sem Ísraelar gera loftárás af þessu tagi í Íran frá 1979.

Þetta segir heimildarmaður ABC News í ríkisstjórn Bandaríkjanna. Hann segir skotmarkið hafa verið ratsjá fyrir loftvarnarkerfi Íran sem kemur að því að verja kjarnorkurannsóknarstöðina í Natanz. Þar hafa Íranar auðgað úran um árabil.

Heimildarmaðurinn segir vísbendingar um að árásin hafi heppnast en það hafi ekki verið sannað að fullu enn. Þá segir hann að árásinni hafi verið ætlað að senda klerkastjórninni í Íran skilaboð um að Ísraelar gætu gert árásir í Íran og að henni hefði ekki verið ætlað að stigmagna átökin milli ríkjanna.

Talið er að Ísraelar hafi skotið skotflaugum sem kallast Blue Sparrow á ratsjána. Þær eru framleiddar af ísraelska hergagnafyrirtækinu Rafael en brak úr þeim fannst í Írak í morgun. Þar er talið að um sé að ræða fyrsta stig skotflauganna.

Ísraelar og Íranar hafa eldað grátt silfur saman um árabil. Nokkuð hefur þó hitnað í kolunum á undanförnum mánuðum, samhliða stríðinu á Gasaströndinni.

Þessi árás fylgir á hæla umfangsmikilli árás Írana á Ísrael um síðustu helgi. Það var í fyrsta sinn sem Íranar gera beina árás á Ísrael og notuðu þeir rúmlega þrjú hundruð sjálfsprengidróna, stýriflaugar og skotflaugar en einungis nokkrar skotflaugar komust í gegnum varnir Ísraela og bandamanna þeirra.

Sú árás var hefndaraðgerð vegna þess þegar Ísraelar gerðu loftárás á ræðismannsskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi og felldu þar meðal annars tvo herforingja úr QUDS-sveitum íranska byltingarvarðarins. Þær sveitir hafa séð um að útvega vígahópum sem Íranar styðja í Mið-Austurlöndum vopn, fjármuni og þjálfun.


Tengdar fréttir

Ísraelar gera árás á Íran

Ísraelar gerðu árás á Íran í morgun samkvæmt tveimur ísraelskum og þremur írönskum embættismönnum. Árásin er sögð hafa beinst gegn herstöð nærri borginni Isfahan.

Ísraelar sagðir búnir að á­kveða að svara fyrir sig

Utanríkisráðherra Bretlands segir ljóst að ísraelsk stjórnvöld séu búin að ákveða að grípa til aðgerða gegn Íran eftir drónaárásina um helgina. Erlendir erindrekar hvetja Ísraela til að sýna hófsemd til þess að kveikja ekki frekara ófriðarbál í heimshlutanum.

Munu láta Írana gjalda þegar þeim hentar

Ísraelar munu svara fyrir sig og láta Íran gjalda fyrir árásina í gærkvöldi, þegar slíkt hentar Ísrael. Þetta sagði Benny Gantz, ráðherra í stríðsráði Ísrael og fyrrverandi varnarmálaráðherra, í yfirlýsingu sem birt var skömmu áður en hann fór á fund stríðsráðs ríkisins í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×