Fótbolti

Margrét Lára gefur „síðustu treyjuna í síðasta leiknum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir átti magnaðan sextán ára feril með íslenska landsliðinu frá 2003 til 2019.
Margrét Lára Viðarsdóttir átti magnaðan sextán ára feril með íslenska landsliðinu frá 2003 til 2019. Vísir/Bára

Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi gefur áhugasömum tækifæri á að vinna sögulega landsliðstreyju sína og styrkja um leið Ljónshjarta.

Margrét Lára Viðarsdóttir lék 124. og síðasta A-landsleikinn sinn 8. október 2019 þegar hún kom inn á sem varamaður í 6-0 sigri á Lettlandi.

Margrét Lára skoraði með sinni síðustu snertingu í síðasta leiknum og innsiglaði stórsigur íslenska liðsins. Hún tilkynnti nokkru síðar að hún væri búin að setja skóna upp á hillu.

Markið hennar á móti Lettlandi var 79. markið hennar fyrir kvennalandsliðið sem er það langmesta í sögunni. Sú næsta á eftir henni á listanum er Hólmfríður Magnúsdóttir með 37 mörk eða 42 mörkum færra en Margrét Lára.

Nú hefur Margrét Lára ákveðið að gefa treyju sína úr leiknum í Lettlandi í söfnun fyrir Ljónshjarta, sem eru samtök fyrir ungar ekkjur, ekkla og börn sem hafa misst foreldri.

Margrét Lára vakti athygli á þessu á fésbókarsíðu sinni en hún hefur áritað treyjuna.

Síðasta treyjan, í seinasta leiknum til styrktar Ljónshjarta

Posted by Margrét Lára Viðarsdóttir on Þriðjudagur, 15. september 2020

Treyjan er verðlaun í happdrætti á vegum CharityShirts.is en hver miði mun kosta þúsund krónur. Öll innkoma mun renna til Ljónshjarta.

Það þótti vel við hæfi að markadrottningin skoraði í síðasta leiknum sínum en hún hafi einnig skorað í fyrsta landsleiknum sínum aðeins fjórum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Sá leikur var 14. júní 2003 á móti Ungverjalandi á Laugardalsvelli.

Margrét Lára klæddist landsliðstreyjunni alls 167 sinnum því hún lék einnig 43 landsleiki fyrir yngri landsliðin. Margrét Lára skoraði alls 109 mörk fyrir öll landslið Íslands þar af þrjátíu þeirra fyrir yngri landsliðin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.