Innlent

Tommi á Búllunni í fram­boð fyrir Flokk fólksins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tómas A. Tómasson, eða Tommi í Tommaborgurum.
Tómas A. Tómasson, eða Tommi í Tommaborgurum. Vísir

Tómas A. Tómasson, oftast kallaður Tommi og kenndur við Búlluna, hefur ákveðið að ganga til liðs við Flokk fólksins og segist hann stefna á að taka þátt í næstu Alþingiskosningum. Ástæða þess sé sú að hann hafi ávallt stefnt á að fara í pólitík þegar hann yrði eldri og nú sé kominn tími til.

Frá þessu greinir Tommi í pistli sem hann birti á eirikurjonsson.is, þar sem hann segir að Flokkur fólksins hafi orðið fyrir valinu vegna ýmissa stefnumála, til dæmis um kjör öryrkja, kjör og aðbúnað eldri borgara, kjör einstæðra foreldra og fleira.

„Útrýma fátækt, styðja við bakið á þeim sem minna mega sín og starfa eftir kærleik og almennum góðum gildum. Ég hef legið undir feldi nú um skeið og hugsað minn gang og fíla mig eins og fuglinn Fönix: „Tilbúinn í slaginn,““ segir í Pistlinum.

Hann segist allar götur frá því hann opnaði Tomma hamborgara í mars 1981 hafi hann verið ákveðinn í að fara út í pólitík þegar hann yrði eldri. Nú séu fjörutíu ár liðin og hann sé loks tilbúinn í slaginn.

„Þess vegna hefi ég gengið til liðs við Flokk fólksins og stefni á að taka þátt í næstu kosningum til Alþingis. Þetta er stórt skref og algjör viðsnúningur í mínu lífi, orðinn sjötíu og eins árs.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×