Innlent

Sætaskylda innleidd á öllum vínveitingastöðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sætisskylda verður á vínveitingastöðum á borð við Hlemm mathöll.
Sætisskylda verður á vínveitingastöðum á borð við Hlemm mathöll. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis sem felur í sér að öllum vínveitingastöðum verði skylt að hafa sæti fyrir alla gesti sína og tryggja að gestir séu að jafnaði í sætum eins og almennt tíðkast á veitingahúsum og kaffihúsum. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Reglugerð þessa efnis tekur gildi mánudaginn 28. september. Frá sama tíma er aflétt tímabundinni lokun kráa og skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu en með fyrrnefndu skilyrði um sætaskyldu. Í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis verða aðrar samkomutakmarknir framlengdar óbreyttar í þrjár vikur til og með 18. október næstkomandi.

Í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra eru tíundaðar helstu reglur sem gilda um sóttvarnir í margvíslegri starfsemi og sjónarmiðin að baki, ásamt tilmælum sóttvarnalæknis.

Þar koma meðal annars fram tilmæli sóttvarnalæknis um að rekstraraðilar skemmtistaða, vínveitingastaða, kráa og spilasala skuli tryggja góð loftgæði og stilla hávaða í hóf. Er þá vísað til þess að hávær tónlist ýti undir að fólk tali hátt sem auki hættu á dropasmiti.

Minnisblað sóttvarnalæknis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×