Viðskipti innlent

Mikill meiri­hluti á­hrifa­valda merkir aug­lýsingar sjaldan

Bjarki Sigurðsson skrifar
Áhrifavaldar verða að merkja auglýsingar á samfélagsmiðlum vel og vandlega og fara eftir neytendalögum.
Áhrifavaldar verða að merkja auglýsingar á samfélagsmiðlum vel og vandlega og fara eftir neytendalögum. Getty

Einungis einn af hverjum fimm áhrifavöldum merkir reglulega auglýsingar á samfélagsmiðlum sínum sem slíkar. 26 íslenskir áhrifavaldar voru til skoðunar.

Þetta eru niðurstöður samræmdar skoðunar neytendayfirvalda í Evrópu sem Neytendastofa tók þátt í en færslur 576 áhrifavalda um alla Evrópu voru skoðaðar. Markmiðið var að sannreyna hvort áhrifavaldar merki auglýsingar eins og nauðsynlegt er samkvæmt neytendalöggjöf.

Neytendastofa skoðaði færslur 26 áhrifavalda og telur tilefni til að skoða nánar 25 þeirra vegna ófullnægjandi merkinga á færslum þeirra. Ekki er tekið fram hvað hver áhrifavaldur á Íslandi gerðist brotlegur um. 

38 prósent áhrifavalda í samræmdu skoðuninni notuðu ekki merkingar frá samfélagsmiðlinum sem ætlaðar eru til að auðkenna auglýsingar, svo sem „paid partnership“ á Instagram. Þeir kusu frekar að skrifa inn á færslurnar mismunandi orðalag eins og „samvinna“ eða „samstarf“. Fjörutíu prósent höfðu merkinguna sýnilega á meðan auglýsingunni stóð en margir þeirra földu hana með því að fá fólk til að skrolla lengra.

Fjörutíu prósent áhrifavalda auglýstu eigin vörur, þjónustu eða vörumerki og sextíu prósent þeirra merktu auglýsingarnar sjaldan eða aldrei. 

Niðurstöður skoðunarinnar voru þær að rannsaka þurfi 358 þeirra 576 áhrifavalda sem voru skoðaðir. Neytendayfirvöld í hverju landi fyrir sig munu sjá um rannsóknina. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×