Viðskipti innlent

Reksturinn þungur í kjöl­far „yfir­gangs og af­skipta lög­reglu“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sverrir Einar hefur rekið skemmtistaðinn B5 síðastliðið tæpt árið, eftir hann tók við rekstrinum af áhrifavaldinum Birgittu Líf.
Sverrir Einar hefur rekið skemmtistaðinn B5 síðastliðið tæpt árið, eftir hann tók við rekstrinum af áhrifavaldinum Birgittu Líf. vísir

Sverrir Einar Eiríksson, eigandi skemmtistaðanna B5 og Exit og áfengisverslunarinnar Nýju vínbúðarinnar, segir rekstur B5 hafa verið þungan í kjölfar afskipta lögreglu af staðnum. Inngrip Ríkisskattstjóra sé því eðlilegt hvað B5 varðar, en ekki hvað varðar Exit og Nýju vínbúðina. 

Þetta segir Sverrir Einar í tilkynningu sem hann sendi Vísi nú síðdegis.

Það gerir hann í kjölfar þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu innsiglaði skemmtistaðina B5 og Exit í miðbæ Reykjavíkur. Þá var húsnæði Nýju vínbúðarinnar einnig innsiglað. Þetta staðfesti Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Kæmu aðgerðirnar til að beiðni Skattsins í tengslum við mál eigandans, Sverris Einars. 

Að neðan má sjá myndband af því þegar Sverrir Einar var leiddur út af Exit í dag.

„Rekstur B5 í Bankastræti hefur verið þungur eftir að til lokunar kom í kjölfar yfirgangs og afskipta lögreglu sem kvartað hefur verið yfir til lögreglu,“ segir Sverrir Einar og bætir við:

„Beiðni skattayfirvalda um lokun á staðnum er því lögmæt og ekki gerður ágreiningur um hana. Staðurinn hefur enda verið lokaður um nokkurn tíma. Unnið er að því að greiða úr þeim málum og stefnt að opnun aftur í maí.“

Í október á síðasta ári afturkallaði sýslumaður starfsleyfi B5, sem þá hét B í kjölfar deilna um notkun vörumerkisins B5. Áður hafði lögregla haft afskipti af Sverri og rekstri staðarins í september, þegar Sverrir var leiddur í járnum. Fram kom að sýslumanni hafi meðal annars borist ítrekaðar tilkynningar frá lögreglu um gesti undir lögaldri.

Sverrir Einar segir annað gilda um rekstur Exit og Nýju vínbúðarinnar.

„Rekstur skemmtistaðarins Exit og Nýju Vínbúðarinnar er hins vegar rekstrarfélagi B5 óviðkomandi virðist einhvers misskilnings gæta um heimild til að fara fram á lokun á þeim rekstri. Úr þeim málum verður leyst í snarhasti, enda hafa skattayfirvöld ekkert upp á þann rekstur að klaga.“


Tengdar fréttir

Innsigla B5 að kröfu Skattsins

Nokkuð fjölmennt lið lögreglu var við skemmtistaðinn sem kallaður er B5 í miðbæ Reykjavíkur á fjórtánda tímanum í dag. Að sögn aðalvarðstjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var verið að innsigla staðinn að beiðni skattyfirvalda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×