Erlent

Niður­læging fyrir þýsk stjórn­völd

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Olaf Scholz kanslari Þýskalands hefur heitið því að málið verði rannsakað til hlýtar.
Olaf Scholz kanslari Þýskalands hefur heitið því að málið verði rannsakað til hlýtar. EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI

Olaf Scholz kanslari Þýskalands hefur heitið því að rannsakað verði til hlýtar hvernig upptökur af leynilegum fundum þýska hersins um Úkraínustríðið komust í dreifingu á rússneskum samfélagsmiðlum.

Í umfjöllun Guardian um málið er fullyrt að það sé niðurlæging fyrir þýsk stjórnvöld. Haft er eftir talsmanni þýska varnarmálaráðuneytisins að talið sé að samræður í flugher Þýskalands hafi lekið.

Er ýjað að því að njósnir Rússa hafi þar mögulega átt sök í máli. Þá segir talsmaðurinn að ekki hafi tekist að staðfesta hvort átt hafi verið við upptökurnar sem eru í dreifingu.

Fram kemur að upptökurnar hafi verið birtar á samfélagsmiðlinum Telegram. Er fullyrt að þar séu yfirmenn í þýska hernum að ræða hvernig megi sprengja Krímbrúna sem tengir Krímskagann við meginland Úkraínu. Það hefur ekki fengist staðfest af vestrænum fjölmiðlum.

Þá virðist vera sem ræddar séu vopnaflutningar til Úkraínu, nánar tiltekið flutninga á Taurus eldflaugum sem eru sérlega langdrægnar. Sjálfur hefur Scholz neitað því að það sé rétt. Úkraínsk yfirvöld hafa lengi kallað eftir því að fá eldflaugarnar frá Þýskalandi.

Scholz segir hinn mögulega leka grafalvarlegan. Verið sé að fara yfir málið. Þá kemur fram í frétt Guardian að rússneska sendiráðið í Berlín hafi ekki svarað fyrirspurn miðilsins um ásakanir á hendur Rússum um mögulegar njósnir.

Fram kemur í þýskum miðlum að málið sé katastrófa fyrir þýsku leyniþjónustuna. Svo virðist vera sem um hafi verið að ræða fund yfirmanna í hernum sem fram hafi farið á WebEx samskiptaforritinu.

Talsmaður rússneskra stjórnvalda hefur kallað eftir því að þýsk stjórnvöld svari fyrir það sem fullyrt er að komi fram í upptökunum. Svari þau ekki muni Rússar líta svo á að það sem þar fram komi sé allt satt og rétt.

Haft er eftir Marie-Agnes Strack-Zimmerman, formanni varnarmálanefndar þýska þingsins, að tilgangur málsins sé augljós fyrir Rússa. Þeir hafi lengi reynt að koma í veg fyrir að Þjóðverjar sendi Úkraínumönnum Taurus eldflaugarnar. Málið sé liður í því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×