Íslenski boltinn

Alex Freyr heim í Fram áður en langt um líður

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alex Freyr í leik með Blikum.
Alex Freyr í leik með Blikum. Vísir/Hulda Margrét

Alex Freyr Elísson mun ganga til liðs við uppeldisfélag sitt Fram á næstu dögum. Hann lék með liðinu allar götur til ársins 2023 þegar Breiðablik keypti hann. Þar náði hann aldrei að festa sig í sessi og er nú á leið aftur í Fram.

Það er 433.is sem greinir fyrst frá en þar segir að allt sé klárt varðandi samningsmál og aðeins tímaspursmál hvenær Fram tilkynnir heimkomuna.

Hægri bakvörðurinn Alex Freyr lék aðeins átta leiki í grænu áður en Blikar lánuðu hann til KA. Þar lék hann þrjá leiki í Bestu deildeinni áður en hann meiddist og missti af lokakafla tímabilsins.

Ljóst er að Alex Freyr styrkir Fram til muna en það verður áhugavert að sjá hvar nýr þjálfari liðsins, Rúnar Kristinsson, mun stilla leikmanninum upp. Alex Freyr hefur undanfarin ár spilað sem hægri bakvörður en Rúnar sótti Kennie Chopart frá sínu gamla félagi KR fyrir ekki svo löngu síðan.

Aðrir leikmenn sem eru gengnir í raðir Fram eru Kyle McLagan frá Íslands- og bikarmeisturum Víkings, Þorri Stefán Þorbjörnsson á láni frá Lyngby og Freyr Sigurðsson frá Sindra.

Fram hefur tímabilið í Bestu deildinni þann 7. apríl þegar liðið fær nýliða Vestra í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×