Golf

Sjáðu höggin í mögnuðum sigri Scheffler: „Fengi kinn­hest frá konunni“

Sindri Sverrisson skrifar
Scottie Scheffler glaðbeittur eftir sigurinn sögulega.
Scottie Scheffler glaðbeittur eftir sigurinn sögulega. Getty/Logan Bowles

Bandaríkjamanninum Scottie Scheffler tókst með mögnuðum lokahring að tryggja sér sigur á Players meistaramótinu í golfi í gær, og þar með skrá nafn sitt rækilega í sögubækurnar.

Scheffler er fyrstur í sögunni til þess að vinna Players tvö ár í röð. Það gerði hann þrátt fyrir hálsmeiðsli sem hann fékk meðferð við á öðrum keppnisdegi. Hann tryggði sér sigurinn, með eins höggs forskoti, með því að spila lokahringinn á aðeins 64 höggum, eða átta höggum undir pari.

Eitt af lykilhöggum Scheffler, sem segja má að hafi að lokum trygg honum sigur, var á fjórðu braut í gær þegar hann tryggði sér örn með fallegu höggi af 84 metra færi.

Scheffler endaði einu höggi á undan Brian Harman, Xander Schauffele og Wyndham Clark. Schauffele var efstur þeirra fyrir lokahringinn en lék hann á -2 höggum.

Clark var eins nálægt því að komast í bráðabana eins og hægt er en boltinn skrúfaðist upp úr holunni í pútti hans á síðustu holunni.

Sigurinn tryggði Scheffler 4,5 milljónir Bandaríkjadala, eða um 620 milljónir króna. Hann er jafnframt sá fyrsti í hálfrar aldar sögu mótsins til að verja titilinn sinn.

Scheffler sagðist eftir sigurinn búa að því að hafa góðan stuðning og grínaðist með það að það hjálpaði sér að eiginkonu hans væri alveg sama um afrek hans á golfvellinum.

„Ég á frábæra eiginkonu og ef ég færi að tala um að koma heim með bikarana og raða þeim um húsið, til að spígspora í kringum þá eins og einher kall, þá fengi ég kinnhest frá konunni minni og hún segði mér að hætta að láta svona,“ sagði Scheffler.

„Þetta er ansi einstakt. Þetta er eitthvað sem maður fær ekki oft tækifæri til að gera. Það er nógu erfitt að vinna þetta mót einu sinni,“ sagði Scheffler.

Hann er aðeins 27 ára og því einnig yngstur í sögunni til að hafa unnið mótið tvisvar. Aðeins Jack Nicklaus hefur unnið það oftar eða þrisvar sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×