Golf

Neitar að gefast upp en bætir lík­lega ekki við glæsta feril­skrá

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mættur til að sjá og sigra.
Mættur til að sjá og sigra. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Tiger Woods verður meðal kylfinga sem tekur þátt á hinu fornfræga Mastersmóti í golfi sem fram fer á Augusta-vellinum frá 11. til 14. apríl næstkomandi. Woods hefur fimm sinnum farið með sigur af hólmi en það verður að teljast ólíklegt nú.

Þrátt fyrir að vera aðeins 48 ára eru bestu dagar Tiger að baki en á sínum tíma var hann óumdeilanlega besti kylfingur heims.

Hann hefur undanfarin ár glímt við gríðarlega erfið bakmeiðsli og í kjölfarið verkjalyfjafíkn tengdum meiðslunum. Þá lenti hann í alvarlegu bílslysi árið 2021 sem hann var heppinn að sleppa lifandi frá.

Woods tekur hins vegar þátt í ár og hefur varið heldur nýstárlegar leiðir til þess að vera upp á sitt besta.

Þegar Tiger hefur leik í ár verður það í 26. sinn sem hann tekur þátt á Mastersmótinu í golfi. Hann hefur ekki spilað síðan í febrúar á þessu ári en stefnir á að endurtaka leikinn frá því 2019 þegar hann kom öllum að óvörum og sigraði mótið.

Var það 15. risamótið sem Woods vann á annars glæstum ferli sínum en fara þurfti aftur til 2008 til að finna síðasta sigur Woods á risamóti. Eftir að fara með sigur af hólmi á Opna bandaríska það árið þá barðist Woods við bakmeiðsli, verkjalyfjafíkn sem og ýmis vandamál í einkalífinu.

Hann sneri til baka tímabilið 2012-13, sigraði átta PGA-mót og lyfti sér aftur á topp heimslistans. Það var svo 2017 sem hann fór í fjórðu aðgerðina á baki og eftir það var alls óvíst hvort hann gæti einhvern tímann keppt aftur á hæsta stigi, hvað þá barist um titla.

Aðeins ári síðar var hann mættur í harða barátta um titilinn á PGA-meistaramótinu og svo á Augusta-vellinum 2019 gerði hann hið ómögulega. Nú fimm árum síðar vonast hann til að endurtaka leikinn og vinna það sem yrði án efa hans stærsti sigur á ferlinum.

Mótið verður í beinni á Stöð 2 Sport 4. Útsending frá fyrsta degi hefst klukkan 18.30 á fimmtudaginn. Daginn áður verður sýnt frá Par 3 keppninni en útsendingin frá henni hefst klukkan 18.30 á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir

Tiger Woods segist vera verkjalaus

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods er að fara að taka þátt í sínu fyrsta golfmóti síðan í desember. Hann keppir á Genesis Invitational mótinu sem hefst í dag.

Tiger Woods telur sig enn geta unnið PGA mót

Tiger Woods hefur hægt og rólega snúið aftur á golfvöllinn eftir að hann slasaðist í bílslysi fyrir nær þremur árum. Hann stefnir á að taka þátt í PGA móti í hverjum mánuði árið 2024. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×