Viðskipti innlent

Opna nýja frjó­semis­mið­stöð á haust­mánuðum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ingunn og Þórir stofna saman nýja frjósemismiðstöð sem opnar í haust.
Ingunn og Þórir stofna saman nýja frjósemismiðstöð sem opnar í haust. Aðsendar

Á haustmánuðum verður opnuð ný frjósemismiðstöð á Íslandi. Miðstöðin hefur fengið nafnið Sunna – frjósemismiðstöð og verður rekin af hjónunum Þóri Harðarsyni, sérfræðingi í frjósemi og kennara við lífeðlisfræðideild Háskóla Íslands, og Ingunni Jónsdóttur, fæðingar- og kvensjúkdómalækni.

Þórir og Ingunn hafa miklu reynslu á þessu sviði. Þau komu að stofnun Livio á Íslandi og störfuðu þar bæði. Ingunn sem læknir og eigandi og Þórir sem yfirmaður rannsóknarstofunnar. Þau hafa starfað við frjósemislækningar á Íslandi og Svíþjóð.

„Gaman að tilkynna það að við erum að fara að opna nýja frjósemismiðstöð á haustmánuðum sem hefur fengið nafnið Sunna. Í því sambandi þá höfum við lagt út þrjár atvinnuauglýsingar á Alfred.is og vonumst að sjálfsögðu að margt gott fólk hafi áhuga á að sækja um hjá okkur og hjálpa við að byggja upp góðan vinnustað saman,“ sagði Þórir í færslu sem hann birti í dag um miðstöðina á Facebook-síðu sinni.

Á Alfreð er nú auglýst eftir móttökufulltrúa, ljósmóðir/hjúkrunarfræðingi og kvensjúkdóma- og fæðingarlækni. Fyrirtækið er í eigu Ingunnar og Þóris en Ósar ehf. Munu koma til með að veita þeim ýmsa stoðþjónustu eins og hvað varðar markaðsmál, vefsíðugerð og fjármál.

„Okkur hefur fundist þurfa samkeppni á þennan markað. Samkeppni með hagsmuni þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda að leiðarljósi. Það þarf sárlega á samkeppni að halda. Þetta er líka okkar sérgrein og þetta er það sem okkur langar að vinna við. Að hjálpa fólki að eignast börn. Þetta er það tvennt sem liggur að baki,“ segir Þórir í samtali við fréttastofu um það af hverju þau vildu opna miðstöðina.

Þórir og Ingunn hafa menntað sig og starfað við frjósemislækningar um árabil. Hann segir þeim afar mikilvægt að nýta sína menntun og reynslu í að veita fólki góða og faglega þjónustu.

„Við ætlum í samkeppni við hitt fyrirtækið og reyna að gera okkur besta. Það hafa allir gott af samkeppni. Ég held að þörfin sé það mikil fyrir annan valmöguleika á Íslandi að fólk muni vilja koma og sjá hvort við getum veitt þeim góða þjónustu. Það verður gott þjónustustig og aðgengi. Við munum hafa það að leiðarljósi og við vorum að það sé pláss fyrir okkur til að gera góða hluti.“

Þórir segir að miðstöðin verði rekin í húsnæði að Urðarhvarfi 8. Unnið er að endurbótum á hæðinni en Þórir gerir ráð fyrir því að þau fái hana afhenta fljótlega eftir sumarið og geti hafið starfsemi.

„Um sama leyti getum við byrjað að taka á móti fólki,“ segir Þórir.

Spurður um verðskrána segir Þórir að hann geti ekki svarað því eins og stendur. Þau vinni að henni en að hún muni liggja fyrir þegar heimasíðan opnar.

Hvað varðar nafnið var Sunna eitthvað sem talaði til þeirra.

„Þetta er annað nafn á sólinni og von og okkur fannst það bjart og fallegt. Það er íslenskt og það talaði til okkar.“


Tengdar fréttir

Frjó­semi stór partur af sjálfs­mynd fólks og erfitt þegar hún bregst

Karlar og konur sem greinast með krabbamein eru líklegri til að glíma líka við ófrjósemi. Frjó­semi er stór partur af sjálfs­mynd fólks og margir sem taka henni sem sjálfsögðum hlut. Al­dís Eva Frið­riks­dóttir er ein fimm fyrir­lesara á mál­þingi um ó­frjó­semi og krabba­mein síðar í dag. 

Fólk sé að skuld­setja sig fyrir tækni­frjóvgunum

Kostnaður við tæknifrjóvganir hleypur á milljónum fyrir fólk í frjósemisvanda. Í aukana færist að fólk leiti út fyrir landsteinana í aðgerðir. Ung kona notaði föðurarf sinn í tæknifrjóvgun.

Sprengja í tækni­frjóvgunum

Tæknifrjóvgunum hér á landi hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Frá árinu 2019 til 2022 fjölgaði aðgerðum um 51 prósent. Þingmaður segir fjölgunina ekki koma sér á óvart.

Fleiri sækja í frjósemismeðferðir

Eftirspurn eftir frjósemismeðferðum hefur aukist töluvert síðustu ár eða frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Biðin eftir því að komast að hefur verið allt að hálft ár þegar hún hefur verið hvað lengst. Þá hefur konum fjölgað sem vilja frysta egg.

Fólki verði frjálst að semja um tækni­frjóvgun að öllu leyti

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill að fólki verði gefið rúmt samningsfrelsi þegar kemur að tæknifrjóvgun. Á dögunum greindi kona frá því að kynfrumum látins eiginmanns hennar hafi verið eytt, þvert á vilja þeirra beggja. Frumvarpi um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun er ætlað að girða fyrir slík atvik.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×