Enski boltinn

Segir búning Henson þann ljótasta í sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stan Collymore og Halldór Einarsson, eigandi Henson.
Stan Collymore og Halldór Einarsson, eigandi Henson. Vísir/Getty Images

Framherjinn fyrrverandi Stan Collymore verður seint talinn aðdáandi „skandinavíska“ fatamerkisins Henson. Hann gengur svo langt að kalla merkið, sem framleiddi eitt sinn treyjur Aston Villa, algjöran skít (e. absolute shite).

Hinn 53 ára gamli Collymore spilaði á sínum tíma þrjá A-landsleiki fyrir Englands hönd ásamt því að raða inn mörkum með Nottingham Forest og Liverpool. Þá lék hann fyrir Aston Villa sem og önnur félög.

Eftir að skórnir fóru upp í hillu rétt eftir aldamót hefur Collymore starfað sem sparkspekingur og er almennt mikill aðdáandi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Til að mynda tók hann Víkingaklappið með Tólfunni og sagði Jamaíka hafa gert vel þegar Heimir Hallgrímsson var tilkynntur sem nýr landsliðsþjálfari.

Hann virðist þó ekki vita að fatamaerkið Henson sé frá Íslandi en á X-síðu sinni (áður Twitter) talar hann um fatamerki frá Skandinavíu þegar hann er að fara yfir sína uppáhalds, og sína minnst, uppáhalds treyju.

Uppáhaldstreyja Collymore er sú sem Aston Villa spilaði í árið 1980, tímabili eftir að félagið varð  Evrópumeistari. Sú sem er í minnstu uppáhaldi er treyja sem Henson hannaði og framleiddi. 

„Einhver ömurlegur skandinavískur framleiðandi og ekkert merki. Algjör skítur,“ segir Collymore um Henson-treyjuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×