Viðskipti innlent

Festi vill sættast við Samkeppniseftirlitið

Árni Sæberg skrifar
Ásta Sigríður Fjeldsted er forstjóri Festi. Félagið rekur meðal annars Krónuna og vill hefja sölu lyfja með kaupum á Lyfju. 
Ásta Sigríður Fjeldsted er forstjóri Festi. Félagið rekur meðal annars Krónuna og vill hefja sölu lyfja með kaupum á Lyfju.  Vísir/Egill

Festi hefur óskað eftir formlegum sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið um möguleg skilyrði vegna kaupa félagsins á Lyfju. 

Í síðustu viku var greint frá því að kaup Festi á Lyfju myndu að óbreyttu krefjast íhlutunar af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar rannsókn á samkeppnislegum áhrifum kaupa Festi hf. á öllu hlutafé Lyfju hf., frá því að samrunaskrá var metin fullnægjandi þann 9. nóvember 2023.

Í tilkynningu Festi til kauphallar segir að félagið hafi nú sent erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem fram koma sjónarmið félagsins og tillögur að skilyrðum vegna frummats stofnunarinnar. Með erindinu sé óskað eftir formlegum sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið um möguleg skilyrði vegna kaupanna. Erindi Festi sé nú til meðferðar og skoðunar hjá Samkeppnieftirlitinu.

Vegna þessa hafi tímafrestir Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar á kaupunum framlengst um fimmtán virka daga eða til 23. maí 2024.

7,8 milljarðar

Samningur um kaup Festi á öllu hlutafé í Lyfju var undirritaður 13. júlí síðastliðinn, en í kaupunum var heildarvirði Lyfju metið á 7,8 milljarða króna. Þá kom fram að endanlegt heildarvirði og kaupverð myndi ráðast af skuldastöðu Lyfju við afhendingu ásamt gengi hlutabréfa í Festi á þeim tíma. Kaupsamningurinn var gerður á grundvelli samkomulags sem gert var 17. mars 2023.

Festi rekur meðal annars Krónuna, N1 og Elko en Lyfja rekur 45 apótek auk heild- og smásölu með heilsutengdar vörur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×