Erlent

Segja minnst sjö bíla hafa fallið í ána

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Talið er að minnst sjö bílar hafi hafnað í ánni.
Talið er að minnst sjö bílar hafi hafnað í ánni. Ap/Kaitlin Newman

Tveimur hefur verið bjargað úr Patapsco-ánni í Baltimore í Bandaríkjunum eftir að brú yfir hana hrundi í nótt. Talið er að minnst sjö bifreiðar hafi hafnað í ánni en óvíst er hversu margir voru í bílunum.

Viðbragðsaðilar leita enn í Patapsco-á eftir að Francis Scott Key brúin hrundi í nótt. Brúin hrundi eftir að gámaflutningaskipinu Dali var siglt á einn brúarstólpann klukkan hálf tvö í nótt að staðartíma. 

Brúin hrundi eftir að flutningaskip sigldi á einn brúarstólpann.AP/Jessica Gallagher

Talið er að minnst sjö bifreiðar hafi hafnað í ánni og óvíst er hversu margir voru í bílunum. Tveimur hefur verið bjargað eins og áður segir, annar þeirra er sagður alvarlega slasaður. Samkvæmt umfjöllun Guardian um málið hafa árstraumarnir gert viðbragðsaðilum erfitt fyrir í leitinni. Meðal þeirra sem taka þátt í björgunaraðgerðum eru kafarar á vegum slökkviliðsins í Baltimore. 

Myndband náðist af því þegar brúin hrundi og hefur það farið eins og eldur í sinu um netheima. Á myndbandinu er hægt að sjá ljós frá bílum á brúnni, sem hafna í ánni. 

Pete Buttigieg, samgönguráðherra Bandaríkjanna, skrifaði á Twitter í morgun að hann hefði rætt við Wes Moore, ríkisstjóra Maryland, og Brandon Scott, borgarstjóra Baltimore, vegna málsins. Stuttu síðar lýsti Moore yfir neyðarástandi vegna slyssins og sagði að björgunaraðgerðir væru unnar í nánu samstarfi við alríkisyfirvöld. 

Samkvæmt umfjöllun Guardian voru 22 um borð í Dali, skipinu sem siglt var á brúna og er skráð í Singapore. Yfirvöld í Singapore hafa gefið það út að þau eigi nú í samtali við bandarísku landhelgisgæsluna vegna málsins og að þau muni rannsaka málið.

Paul J. Wiedefeld, center, samgönguráðherra Maryland, á vettvangi í morgun.AP Photo/Steve Ruark

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem skipið lendir í árekstri en árið 2016 var því siglt á hafnarbakkann þegar það var á leið úr höfn og skemmdist skipið svo illa að það var kyrrsett. Sá árekstur var sagður vegna mannlegra mistaka, veðurskilyrði hafi verið góð. 


Tengdar fréttir

Leita fólks í ánni eftir að brúin hrundi

Viðbragðsaðilar leita nú fólks í Patapsco-ánni, sem rennur í gegn um Baltimore í Bandaríkjunum. Talið er að nokkrir bílar hafi hafnað í ánni þegar Francis Scott Key brúin hrundi í kjölfar þess að fraktskip sigldi á hana í nótt. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×