Fótbolti

„Bjóst ekki við að þetta myndi enda svona“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jesus trúði vart niðurstöðu ítalska knattspyrnusambandsins.
Jesus trúði vart niðurstöðu ítalska knattspyrnusambandsins. Pier Marco Tacca/Getty Images

Brasilíumaðurinn Juan Jesus er æfur út í knattspyrnuyfirvöld á Ítalíu fyrir að refsa ekki Francesco Acerbi, leikmanni Inter, fyrir meint kynþáttaníð í hans garð. 

Acerbi, sem er 36 ára gamall landsliðsmaður Ítala, var sakaður um að hafa kallað ókvæðisorðum að Jesus á grundvelli hörundlitar hans í leik milli liðs hans Inter og Napoli, félags Jesus.

Málið var fellt niður af ítalska knattspyrnusambandinu á þriðjudag vegna skorts á sönnunargögnum. Acerbi átti tíu leikja bann yfir höfði sér, auk sektar, hefði hann verið fundinn sekur. Hann dró sig úr landsliðshópi Ítala vegna málsins.

Napoli gagnrýndi ákvörðunina harðlega í yfirlýsingu í fyrradag og kvaðst félagið ekki ætla að taka þátt í verkefnum Seríu A sem vinna gegn kynþáttaníði.

„Þó að ég virði ákvörðunina, þá er það ákvörðun sem ég á erfitt með að skilja og ég er bitur yfir henni,“ segir meðal annars í langri yfirlýsingu sem Jesus sendi frá sér í gær.

Acerbi og Jesus ræða málin í umræddum leik.Pier Marco Tacca/Getty Images

„Satt að segja er ég hneykslaður á svona alvarlegu atviki þar sem einu mistökin mín voru að taka á því heiðursmannslega. Ég ákvað að trufla ekki mikilvægan leik, með öllum þeim óþægindum sem hefðu valdið áhorfendum sem horfðu á leikinn. Ég gerði það í þeirri trú að slík afstaða hefði verið virt og kannski tekin sem fordæmi,“

„Ég bjóst ekki við að þetta myndi enda svona. Ég óttast – og ég vona að ég hafi rangt fyrir mér – að þetta gæti skapað alvarlegt fordæmi fyrir því að réttlæta ákveðna hegðun eftir atburðinn,“ segir Jesus.

Yfirlýsinguna má sjá í tístinu að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×