Körfubolti

„Allt annað líf þegar þegar gleðin er við völd“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Hjalti Vilhjálmsson einbeittur á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. 
Hjalti Vilhjálmsson einbeittur á hliðarlínunni í leiknum í kvöld.  Vísir/Hulda Margrét

Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari kvennaliðs Vals í körfubolta, var kampakátur með frammistöðu leikmanna sinna þegar liðið lagði Njarðvík að velli í annarri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar að Hlíðarenda í kvöld. 

„Þetta var okkar lang besta frammistaða í allan vetur. Það er alveg klárt mál. Það var bæði mikil gleði hjá leikmönnum liðsins og gríðarleg liðsheild og það skilaði sér í flottri spilamennsku og frábærum sigri,“ sagði Hjalti að leik loknum. 

Eftir dapran leik hjá Brooklyn Pannell í fyrsta leiknum þar sem Valur fékk skell sýndi hún sitt rétta andlit að þessu sinni. Hjalti tók Pannell út fyrir sviga aðspurður um hvað hefði glatt hann mest við frammistöðu Valsliðsins. 

„Það er svo sem ekkert launungarmál að Pannell á stóran þátt í þessum sigri. Að koma úr því að skora fjögur stig í fyrsta leiknum í 32 stig í kvöld gerir gæfumuninni fyrir okkur. Það gefur augaleið. Stóru skotin hjá henni og fleiri í liðinu rötuðu rétta leið og það var gaman að sjá liðið spila,“ sagði Hjalti enn fremur. 

„Við sýndum það með þessari frammistöðu hvers megnugar við erum þegar við spilum á okkar getustigi og leikmenn hafa gaman af því sem þær eru að gera. 

Nú bara förum við til Njarðvíkur og gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að framkalla aðra svona frammistöðu og ef það gerist þá eru okkur allir vegir færir,“ sagði þjálfarinn borubrattur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×