Körfubolti

„Menn þorðu ekki að taka af skarið“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Benedikt Guðmundsson fannst ýmislegt vanta upp á hjá Njarðvíkurliðinu. 
Benedikt Guðmundsson fannst ýmislegt vanta upp á hjá Njarðvíkurliðinu.  Vísir/Pawel

Benedikt Guðmundsson var sáttur við sumt og ósáttur við annað þegar lið hans, Njarðvík, laut í lægra haldi gegn Þór Þorlákshöfn í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld. 

„Við komum mjög flatir inn í þennan leik og ég er mjög svekktur með það. Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn náðum við aftur á móti vopnum okkar og þetta gat endað hvoru megin sem var undir lokin,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur. 

„Þegar mest á reyndi fengum við fullt af sjénsum til þess að innbyrða sigurinn en stóru skotin féllu þeim megin. Mér fannst við reyndar bara allan leikinn of ragir við að taka af skarið og það varð okkur að falli þegar mest á reyndi,“ sagði Benedikt súr. 

„Það var alveg vitað fyrir þessar seríur að þetta yrðu hörkuleikir og þetta myndi sveiflast fram og til baka. Nú er bara staðan 1-1 og við förum aftur til Njarðvíkur til þess að endurheimta forystuna. Við þurfum að laga ýmislegt og við förum yfir það fram að næsta leik,“ sagði hann um framhaldið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×