Sport

Gagn­rýna Ólympíu­búninga: „Ég er móðir og get ekki látið sjá mig í þessu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Femita Ayanbeku keppir fyrir Bandaríkin á Ólympíumóti fatlaðra en hún er allt annað en hrifin af nýju búningunum.
Femita Ayanbeku keppir fyrir Bandaríkin á Ólympíumóti fatlaðra en hún er allt annað en hrifin af nýju búningunum. Getty/Dia Dipasupil/

Bandaríkjamenn kynntu um helgina búningana sem keppnisfólkið þeirra mun klæðast á Ólympíuleikunum í París í sumar. Það er óhætt að segja að margar af íþróttakonunum séu ósáttar.

Nike hannaði Ólympíubúninganna og kynnti þá með viðhöfn. Gagnrýnisraddir fóru strax að heyrast. Búningarnir skilja ekki mikið eftir fyrir ímyndunaraflið þegar kemur að líkömum íþróttakvennanna.

Það eru einkum búningarnir sem frjálsíþróttakonur Bandaríkjanna eiga að klæðast í París. Það er kannski best að líka þeim við sundföt frekar en íþróttabúninga.

Lauren Fleshman, sem hefur keppt á þremur heimsmeistaramótum fyrir Bandaríkin, kallaði búninganna kynferðislegan klæðnað.

„Þetta er fáránlegt. Að vera þvinguð til að klæðast einhverju eins og þessu á sama tíma og það er pressa á þér að standa þig á stærsta sviðinu. Þarna þarftu að fara að hugsa um hvernig þú lítur út þegar þú hreyfir þig. Þetta er algjört virðingarleysi,“ sagði Fleshman við The Times.

Femita Ayanbeku, sem hefur tekið þátt í tveimur Ólympíumótum fatlaðra, var einnig gagnrýnin í orðum sínum á Instagram.

„Þetta er brandari. Ég er móðir og get ekki látið sjá mig í þessu. Hvar eru buxurnar,“ spurði Femita Ayanbeku.

Langstökksstjarnan spurði sig sjálfa: „Af hverju var engin kona höfð með í ráðum við hönnun búninganna,“ spurði Abigail Irozuru.

New York Times hafði samband við Nike sem lofaði því að keppendur gætu fengið öðruvísi búninga en þeir sem voru sýndir þarna.

„Það eru næstum því fimmtíu einstök afbrigði af búningunum fyrir bæði karla og konur,“ sagði John Hoke hjá Nike.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×