Körfubolti

Kjartan Atli sló metið sem þjálfari sem hann setti sem leik­maður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Atli Kjartansson var ánægður með leik sinna manna í sigri á bikarmeisturum Keflavíkur í gærkvöldi.
Kjartan Atli Kjartansson var ánægður með leik sinna manna í sigri á bikarmeisturum Keflavíkur í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Álftnesingar settu nýtt met í úrslitakeppni karla í körfubolta í gær með því að vinna stærsta sigurinn í fyrsta heimaleik félags í sögu úrslitakeppninnar.

Álftanesliðið vann í gærkvöldi 21 stigs sigur á Keflavík, 76-55, og jafnaði einvígi liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla.

Metið var áður í eigu nágranna þeirra í Stjörnunni. Stjarnan vann tuttugu stiga sigur á Snæfelli í fyrsta heimaleik sínum í úrslitakeppni var í átta liða úrslitunum 2009.

Stjarnan jafnaði þá metin í einvígi á móti Snæfelli með 99-79 sigri. Þá þurfti bara að vinna tvo leiki í átta liða úrslitunum og Snæfell fór áfram eftir sigur á Stjörnumönnum í oddaleik í Stykkishólmi.

Svo skemmtilega vill til að Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftanesliðsins í dag, var leikmaður Stjörnuliðsins í umræddum leik.

Kjartan skoraði reyndar bara tvö stig í leiknum en stal þremur boltum, tók fimm fráköst og Stjarnan vann með 14 stigum þær rétt tæpu 23 mínútur sem hann spilaði.

Justin Shouse var atkvæðamestur í Stjörnuliðinu með 28 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta en Jovan Zdravevski skoraði 25 stig.

Kjartan Atli sló því í gær metið sem þjálfari sem hann setti sem leikmaður fimmtán árum fyrr.

  • Stærsti sigur í fyrsta heimaleik félags í úrslitakeppni 1984-2024:
  • 21 stig
  • Álftanes á móti Keflavík 2024 (76-55)
  • 20 stig
  • Stjarnan á móti Snæfelli 2009 (99-79)
  • 16 stig
  • KR á móti Val 1984 (87-71)
  • 15 stig
  • Valur á móti KR 1984 (76-61)
  • 12 stig
  • Skallagrímur á móti Keflavík 1993 (80-68)
  • 11 stig
  • ÍA á móti Grindavík 1994 (91-80)
  • 9 stig
  • KFÍ á móti Njarðvík 1998 (96-87)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×