Körfubolti

Mætti fyrst allra í Prada og var valin fyrst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark stllir sér upp með Indiana Fever búninginn og við hlið Cathy Engelbert, hæstráðanda í WNBA deildinni.
Caitlin Clark stllir sér upp með Indiana Fever búninginn og við hlið Cathy Engelbert, hæstráðanda í WNBA deildinni. Getty/Sarah Stier

Caitlin Clark var valin fyrst í nýliðavali WNBA deildarinnar í nótt og það kom eflaust engum á óvart.

„Ég get ekki beðið,“ sagði hin 22 ára gamla Clark eftir að verst falda leyndarmálið hafði verið opinberað.

Um leið og hún tilkynnti að hún ætlaði að skrá sig í nýliðavalið þá varð öllum ljóst að Indiana Fever hefði dottið í lukkupottinn því félagið átti fyrsta valréttinn.

Clark átti magnaðan háskólaferil þar sem hún sló flest stiga- og þriggja stiga met hjá bæði körlum og konum. Hún varð á sama tíma einn allra vinsælasti íþróttamaður Bandaríkjanna og hefur margfaldað áhuga á kvennakörfunni.

Clark er mjög skemmtilegur leikmaður, frábær skotmaður með frábærar sendingar og í raun sannkölluð tilþrifadrottning.

Miðar á leiki skólans hennar ruku upp í verði þegar vinsældir hennar jukust og aldrei hafa fleiri horft á körfuboltaleik í háskólaboltanum en lokaleik hennar um titilinn. Tæpar nítján milljónir fylgdust með leiknum sem meira áhorf en á alla NBA leiki frá 2019.

Nú er búist við því að hún auki mikið áhugann á WNBA deildinni þegar hún fer af stað í vor.

„Þetta er erfiðasta deildin í heiminum svo að það er eins gott að þú spilir þinn besta leik á hverju kvöldi. Mig hefur dreymt um þessa stund síðan ég var í öðrum bekk og það hefur kostað mikla vinnu að komast hingað með fullt af hæðum og lægðum,“ sagði Clark.

Clark skrifaði nýja kafla í sögu háskólaboltans í vetur þegar hún sló hvert stigametið á fætur öðru. Hún var líka söguleg í nýliðavalinu í gær þar sem hún var fyrsta konan eða karlinn sem mætir á nýliðaval NBA eða WNBA klædd í Prada föt.

Indiana Fever sást varla á stóru sjónvarpsstöðvunum í fyrra en á þessu tímabili verða nær allir leikir liðsins sýndir beint. Mótherjar liðsins hafa líka fært leiki sína á móti Indiana Fever í stærri hús til að bregðast við gríðarlegum áhuga á miðum á þá leiki.

Sú sem var valin númer tvö var Cameron Brink, miðherji Stanford, sem fór til Los Angeles Sparks. Sparks valdi einnig Rickea Jackson númer fjögur en hún skoraði 17,8 stig í leik fyrir Tennessee skólann í vetur. Cameron Brink var valin besti varnarmaður ársins en guðfaðir hennar er Dell Curry, faðir Stephen Curry.

Chicago Sky styrkti sig líka undir körfunni með því að velja Kamilla Cardoso frá South Carolina skólanum númer tvö og Angel Reese frá LSU númer sjö. Tveir kraftmiklir og frábærir leikmenn sem háðu líka mörg einvígi undir körfunni á háskólaferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×