Fótbolti

Xavi: Dómarinn var lé­legur og eyði­lagði ein­vígið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Xavi Hernandez endaði leikinn upp í heiðursstúku eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið frá dómara leiksins.
 Xavi Hernandez endaði leikinn upp í heiðursstúku eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið frá dómara leiksins. Getty/Pedro Salado

Xavi Hernández var snælduvitlaus út í dómara leiksins eftir að Barcelona-liðið hans var slegið út úr Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Barcelona var á heimavelli, vann fyrri leikinn og komst yfir í gær en það dugði ekki til. PSG nýtti sér vel að vera ellefu á móti tíu og vann leikinn á endanum 4-1.

Rúmenski dómarinn Istvan Kovacs gaf Ronald Araújo rautt spjald á 29. mínútu og Xavi fékk síðar rautt spjald fyrir að missa sig á hliðarlínunni.

„Við erum mjög gramir. Rauða spjaldið réði úrslitum. Við vorum vel skipulagðir ellefu á móti ellefu. Rauða spjaldið breytti öllu og að mínu mati þá er það allt of harður dómur að reka Araújo út af þarna,“ sagði Xavi.

„Það er synd að Meistaradeildardraumur okkar sé á enda út af dómaranum. Dómarinn var mjög lélegur. Ég sagði honum að hann væri stórslys. Hann eyðilagði einvígið. Ég er ekki hrifinn af því að tala um dómara en það verður bata að segja þetta. Ég skil þetta ekki,“ sagði Xavi. ESPN segir frá.

„Það er ekki gott að enda með tíu leikmenn og eftir það varð þetta allt annar leikur. Við getum talað og talað um leikinn en þetta snýst allt um þetta rauða spjald. Það er til einkis að tala um leikinn því dómarinn eyðilagði hann,“ sagði Xavi.

Xavi viðurkennir þó að hafa gert mistök þegar hann fékk rauða spjaldið fyrir að sparka í auglýsingaskilti fyrir framan fjórða dómarann.

„Það voru mistök hjá mér og mér að kenna,“ sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×