Körfubolti

Fór lítið fyrir Martin í fyrsta tapi Valencia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin og félagar hafa átt betri leiki en í kvöld.
Martin og félagar hafa átt betri leiki en í kvöld. Oscar J. Barroso/Getty Images

Martin Hermannsson og félagar í Valencia máttu þola fimm stiga tap gegn Barcelona í EuroLeague í kvöld. Lokatölur 71-66 gestunum frá Katalóníu í vil. Var þetta fyrsta tap Valencia í keppninni á tímabilinu.

Bæði lið leika eðli málsins samkvæmt í efstu deild á Spáni þar sem Börsungar eru með fullt hús stiga að loknum þremur leikjum á meðan Valencia hefur aðeins unnið tvo af fimm. Þau mættust í EuroLeague [aðal keppni álfunnar] og fór það svo að gott gengi Börsunga hélt áfram. 

Eftir jafnan fyrri hálfleik var það Valencia sem leiddi með tveimur stigum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan þá 35-33. Heimamenn áttu hins vegar aldrei viðreisnar von í 3. leikhluta þar sem þeir skoruðu aðeins níu stig gegn 21 hjá gestunum. Þó svo að Valencia hafi unnið síðasta leikhluta með fimm stiga mun þá dugði það einfaldlega ekki til. 

Lokatölur eins og áður sagði 71-66 Börsungum í vil sem hafa nú unnið tvo leiki og tapað einum í EuroLeague. Var þetta fyrsta tap Valencia í keppninni til þessa en liðið hefur einnig leikið þrjá leiki.

Martin skoraði aðeins eitt stig, tók eitt frákast og gaf tvær stoðsendingar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×